132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú hagar svo til að það er búið að bera upp talsverðan hluta af þeim spurningum sem ég ætlaði að bera hér upp. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði það hér áðan. Þarf ég ekki að endurtaka það. Ég vil ekki lengja þessa umræðu meira en þörf er á þar sem talsvert er liðið fram á nóttina. Þó vil ég víkja að einu atriði varðandi starfsemi Landhelgisgæslunnar á komandi tímum í ljósi þess hvernig varnar- og öryggismálum okkar er hagað um þessar mundir. Það er náttúrlega í fyrsta lagi varðandi þyrlusveitina og hvort hæstv. ráðherra geti upplýst hvað menn eru farnir að skoða í þá veru.

Í annan stað langar mig að víkja að því að fyrirhugaðar eru siglingar Norðmanna og sennilega Rússa meðfram landinu eða norðan við land sennilega aðallega þegar fram í sækir með gas og olíu úr norðurhöfum, Barentshafi. Það verða að líkindum nokkuð stór skip sem í framtíðinni munu sigla þessa leið áleiðis til Bandaríkjanna eða Kanada og við þurfum að bregðast einhvern veginn við í samræmi við það að þessar siglingar hefjast.

Við Íslendingar höfum löngum reynt að treysta á okkar varðskip til aðstoðar þegar eitthvað hefur bjátað á. Líkur eru á því að þegar þessar siglingar hefjast einhvern tíma í framtíðinni — og það er víst ekki svo langt í að Norðmenn hefji þessar siglingar — þá muni vafalaust þurfa að takast á við það að hér geti orðið vélarbilanir í skipum eða að önnur óhöpp geti orðið þess valdandi að hætta skapaðist á verulegu mengunarslysi.

Til að hreyfa þessi skip sem eru nokkur hundruð þúsund tonna jafnvel þarf alveg ótrúlega mikið afl. Það þarf nánast sérhannaða dráttarbáta til þess. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta. Nú erum við væntanlega langt komin í því ferli að smíða nýtt varðskip. Það hefur svo sem verið talað um að það yrði öflugt, mun öflugra við að aðstoða skip og draga þau en skipin okkar eru nú. Við sáum líka þegar dregið var skip út af söndunum við Suðurland síðast að til þess þurfti óhemju kraftmikil skip. Það verður að vera hægt að bregðast við uppákomum í gas- og olíuflutningum norðan við land því vafalaust verða óhöpp í framtíðinni ef þessar siglingaleiðir verða almennt teknar upp við flutninga af olíusvæðum í Barentshafi. Þá þurfum við að geta brugðist við til að koma í veg fyrir að skipin reki jafnvel hér á land. Þessi skip sem rista margra metra. Þau eru jafnvel allt að 20 metra djúprista fulllestuð og geysilegt afl þarf til að hreyfa þau, draga þau til að koma í veg fyrir slys.

Unnin hefur verið skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins þar sem horft var til þessara átta. Ég held að Landhelgisgæslan hafi komið að því einmitt. Við horfum núna væntanlega til talsvert breyttra áherslna varðandi Landhelgisgæsluna og öryggishlutverk okkar vegna breytinga í varnarmálum, vegna verkefna við sjóbjörgun og rekstur þyrlusveitar sem við verðum mjög líklega að taka upp o.s.frv. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra fara nokkrum orðum um það sem ég hef hér nefnt. Ég held að frumvarpið eins og það liggur hérna fyrir sé að mörgu leyti ágætlega unnið. Ég hef ekkert sérstakt við það að athuga. Þó er hægt að benda á að til stendur að einkavæða einhverja rekstrarþætti. Það er alla vega veitt til þess heimild. Það eru svo sem kannski engin sérstök plön um það. En alla vega er veitt til þess heimild og getur mönnum svo sem sýnst sitthvað um það, þ.e. ef af því verður að stofnað verði hlutafélag um skiparekstur, flug og tækniþjónustu o.s.frv. Ég sé það ekki alveg fyrir mér hvernig þessum málum verður háttað í framtíðinni, þ.e. öryggishlutverkinu sem mér sýnist að Landhelgisgæslan þurfi að sinna í meira mæli en kannski var meðan við höfðum varnarsamning og setulið frá Bandaríkjunum. Það vitum við ekki á þessari stundu og erum auðvitað að ræða þetta í svolítilli óvissu. En ég held að menn hljóti samt að horfa til þess að Landhelgisgæslan muni í framtíðinni hafa meira hlutverk og veigameira og verði kannski meiri þátttakandi í öryggismálum okkar, án þess að sá sem hér stendur geti svo sem neitt fullyrt um það. En það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi fara um það nokkrum orðum hvaða sýn hann hefur á þann þátt málsins.