132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Happdrætti Háskóla Íslands.

748. mál
[02:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir undir frumvarpið. Ég sá það eftir að gengið hafði verið frá frumvarpinu að það hefði að sjálfsögðu átt að orða 1. gr. öðruvísi. Í greininni segir núna:

„Leyfishafi greiði í ríkissjóð 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald, þó ekki hærri fjárhæð en 150.000.000 kr.“

Það á að taka út orðið „einka“ þarna. Hann greiði leyfisgjald því hann er ekki lengur með einkaleyfi á rekstri peningahappdrættis. En þetta er leyfisgjald sem hann greiðir vegna þess m.a. að Happdrætti Háskóla Íslands hefur víðari heimildir til fjáröflunar en bara rekstur á flokkahappdrætti. Þá kem ég að þeirri spurningu sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson vék að mér: hvort einhver önnur happdrætti væru að borga út vinninga í vörum en ekki peningum.

Eins og hv. þingmenn vita eru happdrætti sem veita vinninga í bílum og öðru slíku eða með farseðlum og ferðalögum. Það er ekki verið að fjalla um þau hér heldur eru tvö happdrætti, happdrætti SÍBS og DAS, sem greiða út vinninga úr flokkahappdrætti með peningum. Það er sérstaða þessara happdrætta að þetta eru flokkahappdrætti og þessi tvö happdrætti fyrir utan Happdrætti Háskóla Íslands eru þau einu sem eru flokkahappdrætti. Ég mæli þannig ekki með því við nefndina að hún fari að taka upp þá reglu að öll happdrætti hafi leyfi til að greiða út vinninga í peningum. En síðan eru aðrir aðilar sem greiða vinninga í peningum eins og Lottóið og náttúrlega spilakassarnir og Getspáin og hvað þetta heitir allt saman eins og hv. þingmenn vita.

Þetta verða menn að hafa í huga og um það hefur styrinn hefur staðið að happdrætti SÍBS og DAS hafa talið samkeppnisstöðu sína gagnvart Happdrætti Háskóla Íslands skerta vegna þess að þeim hefur verið gert skylt að greiða út vinninga í öðru en peningum og því er verið að breyta með þessu frumvarpi.

Hv. þingmenn og hv. allsherjarnefnd kalla vafalaust fyrir sig forráðamenn Happdrættis Háskóla Íslands, stjórnarformann og framkvæmdastjóra og þeir munu vafalaust staðfesta það sem ég hef sagt að um þetta mál er góð sátt. Það má segja að gjaldið er ekki lagt niður vegna þess að það er mjög mikilvægt held ég að hafa þennan bundna tekjustofn í Tækjasjóði til að tryggja Tækjasjóði þessar öruggu eyrnamerktu tekjur. Það eru ekki mörg ákvæði í lögum orðið eftir sem tryggja ákveðnum sjóðum eyrnamerktar tekjur á þennan veg og menn sjá sér hag að því.

Satt að segja þegar hugað hefur verið að því að afnema þetta einkaleyfisgjald og afla ríkissjóði tekna í stað þess á annan hátt hefur það löngum vafist fyrir mönnum. Ég tel því að sú sátt sem við höfum náð um þetta sé þess eðlis að ég vona að líka náist sátt um málið í hv. allsherjarnefnd.