132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:09]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það þótti fáheyrð ósvífni hjá þeim hæstv. og hv. félögum Geir H. Haarde og Halldóri Blöndal þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fann að því að utanríkisráðherra skyldi ekki hafa ráðgast við utanríkismálanefnd þingsins eftir viðræðurnar um daginn. Halldór Blöndal, hinn víðsýni og háttvirti og ágæti formaður utanríkismálanefndar, sagði að það yrði ekki gert fyrr en málin væru orðin nógu þroskuð til að þau gætu komist á borð þessarar nefndar.

Síðan gerist það að Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir í leiðara sínum á laugardag orð sem allir sem hafa vit á pólitík á Íslandi túlka þannig að þótt hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki gengið á fund utanríkismálanefndar Alþingis hafi hann gengið á fund ritstjóra Morgunblaðsins og kynnt honum þær fersku og nýju hugmyndir sem Bandaríkjamenn hafa lagt á borðið.

Hér er eðlilega spurt: Ætlar Geir H. Haarde fyrr eða kannski miklu síðar að upplýsa Alþingi um þessar hugmyndir? Í öðru lagi er spurt í tilefni af orðum hæstv. forsætisráðherra um helgina: Hefur hæstv. utanríkisráðherra sagt hæstv. forsætisráðherra frá þessum nýju og fersku hugmyndum Bandaríkjamanna um varnarmál Íslands?