132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stjórn fundarins.

[12:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs hér til að finna því hvernig hæstv. forseti stýrir fundi. Þetta er annan daginn í röð sem umræður verða um stjórn þingsins þar sem hæstv. forseti raðar mönnum þannig niður að þeir hæstv. ráðherrar sem málið brennur á, sem fyrirspurnum er beint til, fá að tala síðastir í bæði skiptin. Í gær gerðist þetta og aftur núna. Það er því mjög erfitt fyrir okkur þingmenn sem hingað komum til að reyna að fá svör við ákveðnum spurningum að eiga við þá orðastað.

Mér finnst þetta ekki vera farsæl leið hjá hæstv. forseta til að stýra þinginu. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla þessum vinnubrögðum. Ég tel ekki að þetta sé eðlilegt, bara svo það komi alveg skýrt fram.

Í annan stað, frú forseti, er það svo að hér eru í gangi einhver erfiðustu mál í samskiptum okkar við aðrar þjóðir sem hafa komið fram lengi. Það vill svo til að sá málaflokkur hlítir sérstökum lögum. Þar segir að ríkisstjórnin eigi að hafa samráð við utanríkismálanefnd.

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á því að hann er að ræða hér um fundarstjórn forseta en ekki efnislega um málið.)

Frú forseti. Eru þetta einhver ný vinnubrögð hjá hæstv. forseta? Hversu oft hafa þingmenn, þar á meðal ég, ekki komið hingað upp til að biðja um liðsinni og atbeina forseta til að þingnefndir fái starfað eðlilega. Ég var að koma að því í mínu máli.

(Forseti (SP): Forseti leggur áherslu á …)

Hún getur auðvitað rekið mig úr stólnum ef hún vill.

(Forseti (SP): Forseti er hér að tala og leggur áherslu á að hér er þingsköpum fylgt. Það ber að ræða um fundarstjórn forseta, ekki efnislega um málið.)

(Gripið fram í.) Frú forseti. Hér er frá því greint af hæstv. forseta að það sé verið að ræða þingsköp. Það vill svo til að í lögum um þingsköp er nákvæmlega þetta atriði sem ég er hér að taka upp. Í lögum um þingsköp segir að það eigi að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkismál. Það eru lög. Ég kem hér upp til að spyrja hæstv. forseta hvernig hún ætli að greiða því atbeina að þau lög séu haldin. Hvernig ætlar hún, eða ætlar hún ekki, að hlutast til um að eðlilegt samráð sé haft við utanríkismálanefnd? Hér hefur það komið fram, og ég ætla ekki í neina efnislega umræðu um það, að hæstv. forsætisráðherra hefur sett fram ákveðnar hugmyndir um utanríkismál sem reyndar eru þess eðlis að þær falla vel að hugmyndum Samfylkingarinnar. Hæstv. utanríkisráðherra er allt annarrar skoðunar eins og hann hefur lýst. Erum við þá ekki komin að þeim tímapunkti að það eigi að hafa samráð við þingið um hvaða stefna á að vera uppi?

Ég spyr hæstv. forseta: Ætlar hann ekki að beita sér fyrir því að á morgun, þegar reglulegur fundur utanríkismálanefndar er haldinn, að þá komi hæstv. utanríkisráðherra, jafnvel þó það þurfi að draga hann með tólf hestum, til að uppfylla þingsköp og hafa samráð?