132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:30]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um kjararáð. Frumvarpið er afrakstur starfs þverpólitískrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði hinn 30. janúar sl. til að fara yfir lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992. Nefndinni var falið að gera tillögur um breytingar á lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd í ljósi reynslunnar og ábendinga sem fram höfðu komið um annmarka á þeim.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um aðdraganda þess að nefndin var skipuð en með úrskurði hinn 19. desember 2005 endurákvarðaði Kjaradómur laun þeirra aðila sem undir hann falla samkvæmt lögum nr. 120/1992. Úrskurðurinn fól í sér að hinn 1. janúar 2006 skyldu laun forseta Íslands hækka um 6,15% og laun annarra sem undir dóminn heyra að jafnaði um 8,16%. Frá sama tíma hækkuðu laun á vinnumarkaði almennt um 2,5%.

Úrskurðurinn vakti mikil viðbrögð aðila vinnumarkaðarins sem töldu nýgerðu samkomulagi um kjaramál stefnt í hættu. Eftir að hafa farið yfir málið og rætt við aðila vinnumarkaðarins og jafnframt við stjórnarandstöðuna ákvað ríkisstjórnin annars vegar að leggja til við Alþingi að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi með lagasetningu þannig að í stað þeirra hækkana sem þar voru ákveðnar kæmi 2,5% hækkun frá 1. febrúar 2006. Var þetta gert með lögum nr. 2/2006. Hins vegar ákvað ríkisstjórnin að endurskoða lögin í heild og leggja fram frumvarp þar að lútandi fyrir þinglok.

Nefndin, undir formennsku Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra, hélt 11 fundi og hitti að máli formenn Kjaradóms og kjaranefndar, talsmenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og fulltrúa helstu félaga ríkisstarfsmanna. Nefndin skilaði af sér innan tilsetts tíma með bréfi, dags. 22. mars sl. Fullt samkomulag var í nefndinni um tillögurnar.

Það var niðurstaða nefndarinnar að gera þyrfti allnokkrar breytingar á lögum nr. 120/1992 í ljósi reynslunnar. Þannig hefði það skapað nokkur vandkvæði að hafa tvo úrskurðaraðila um kjaramál opinberra starfsmanna og í því væri fólgin hætta á misræmi. Vert væri að auka áhrif Alþingis um skipan einstaklinga til setu í úrskurðaraðilanum til að undirstrika ábyrgð þingsins á störfum hans. Taka bæri af skarið um stjórnskipulega stöðu úrskurðaraðilans því skiptar skoðanir væru uppi um það hvort hér væri á ferð lögbundinn gerðardómur eða sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Þá bæri að leggja skýrari línur um það hverjir ættu að falla undir úrskurðaraðila en samkvæmt gildandi lögum gætti ekki fyllsta samræmis um það hverra kjör skyldu ákveðin með þessum sérstaka hætti. Loks væri ástæða til að skerpa á þeim viðmiðum sem úrskurðaraðilanum bæri að fara eftir.

Í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir og nefndin samdi er brugðist við þessum annmörkum á gildandi lögum. Meginefni þess eru eftirfarandi: Komið verði á fót nýrri stofnun, kjararáði, sem leysir Kjaradóm og kjaranefnd af hólmi. Í hinu nýja ráði munu eiga sæti fimm menn valdir að meiri hluta af Alþingi, þ.e. þrír. Þá er tekið af skarið um að kjararáð sé sjálfstæður úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og að ákvörðunum þess verði ekki skotið til annarra stjórnvalda. Eftir sem áður verður hægt að bera ákvarðanir ráðsins undir dómstóla. Ætla má að eftirlit dómstóla muni fyrst og fremst lúta að því hvort ráðið hafi farið að lögum og að málefnaleg sjónarmið ráði för. Ekki verði um það að ræða að dómstólar endurskoði efnislega launaákvarðanir ráðsins.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á sjálfstæði ráðsins í störfum. Þannig mun það sjálft velja sér formann og setja sér starfsreglur. Í þágu sveigjanleika er kveðið á um að ráðið starfi í tveimur deildum. Þegar ákvarðanir verða teknar um laun forseta, þingmanna, dómara og ráðherra er ráðið fullskipað fimm mönnum. Ákvarðanir um laun annarra embættismanna, sem eru miklum mun fleiri, eru hins vegar teknar af þriggja manna deild innan ráðsins.

Með frumvarpinu er mörkuð sú stefna að lögbundinn úrskurðaraðili skuli einungis ákveða laun þeirra ríkisstarfsmanna sem svo er háttað um að kjör þeirra geti ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Ráðinu sjálfu er ætlað að skera úr um hverjir uppfylli þessi skilyrði laganna aðrir en þeir sem lögákveðið er að falli undir ráðið. Þannig er ljóst að forseti, þingmenn, dómarar og ráðherrar heyra undir ráðið á grundvelli 3. gr. frumvarpsins. Sama á við um suma embættismenn á grundvelli sérákvæða í lögum, eins og t.d. ríkisendurskoðanda og umboðsmann barna. Til þess að ekki verði óeðlileg röskun á kjörum þeirra sem nú heyra undir Kjaradóm eða kjaranefnd er mælt fyrir um í bráðabirgðaákvæði að þeir heyri undir kjararáð uns annað hefur verið ákveðið. Það er þó alveg ljóst að meginreglan hlýtur að vera samningsfrelsi og ekki stendur til að fjölga þeim sem undir kjararáðið munu heyra.

Að því er varðar launaviðmið fylgir frumvarpið í meginatriðum ákvæðum núgildandi laga en sterklega er áréttað að kjararáð skuli ætíð taka til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Má þannig vera ljóst að ekki beri einungis að líta til þróunar kjara hjá sambærilegum hópum á vinnumarkaði. Er með þessu vonandi girt fyrir uppákomur eins og þá sem varð skömmu fyrir síðustu jól.

Þá er kjararáðinu heimilað að taka ákvarðanir um launakjör á nokkurra ára fresti og binda þau almennri launavísitölu þess á milli. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands, sem komu á fund nefndarinnar sem undirbjó frumvarpið, bentu á þessa aðferð og þótti rétt að gefa kjararáði færi á að fara þessa leið og kann það að þykja hentugt varðandi afmarkaða hópa sem undir ráðið heyra, ekki síst hina þjóðkjörnu. Vandinn er hins vegar að finna ábyggilega og nothæfa vísitölu og er kjararáðinu eftirlátið að velja hana ef svo ber undir í samráði við Hagstofu Íslands.

Um starfshætti kjararáðsins eru að öðru leyti þau nýmæli að kveðið er á um að því beri að birta ákvarðanir sínar og ástæðurnar fyrir þeim opinberlega á skipulegan og aðgengilegan hátt. Núverandi fyrirkomulag hefur nokkuð verið gagnrýnt fyrir að vera ógagnsætt og að ekki hafi alltaf legið ljóst fyrir hvernig ákvarðanir voru rökstuddar. Frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð þar sem m.a. er rakin saga löggjafar um sérstaka úrskurðaraðila um kjör opinberra starfsmanna. Því fylgja einnig greinargerðir núverandi formanna Kjaradóms og kjaranefndar ásamt fleira ítarefni sem mun auðvelda hv. Alþingi að taka afstöðu til málsins.

Það er afar mikilvægt að sátt ríki um skipan úrskurðaraðila um kjaramál helstu embættismanna ríkisins og um tilhögun ákvörðunar á kjörum þeirra. Þess vegna er það einkar ánægjulegt að fullkomin samstaða skyldi nást um þessar tillögur í nefndinni sem þær samdi, en í henni voru fulltrúar frá öllum flokkum sem eru starfandi á hv. Alþingi.

Ríkisstjórnin bindur vonir við að með frumvarpinu sé lagður grunnur að víðtækri sátt um þessi launamál ríkisins til frambúðar og þannig leggi Alþingi sitt af mörkum til að tryggja áframhaldandi frið á vinnumarkaði.

Frú forseti. Ég er kominn að lokum máls míns og að þessum orðum sögðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.