132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því sjálfur yfir að eftirlaunalögin yrðu leiðrétt og að hann, sem nýr forsætisráðherra yfir Íslandi, ætlaði að ganga í það. Nú er liðið ár síðan. Það er liðið eitt þing og nú er frestur til að skila málum á öðru þingi líka liðinn og ekkert bólar á málinu. Mér þykir það satt að segja ekki stórmannlegt af hæstv. forsætisráðherra að skýla sér nú ári síðar á bak við forsætisnefnd þingsins og það standi upp á forsætisnefnd þingsins að efna yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra. Ég hefði haldið, virðulegi forseti, að það væri verkefni forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands að efna sínar eigin yfirlýsingar. En fyrst þessi mikla andstaða er hljótum við einfaldlega að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem stendur í veginum fyrir því að þessi lágmarksleiðrétting á eftirlaunalögunum verði gerð? Við fáum það þá alveg klárt og kvitt að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem varni því að yfirlýsingar forsætisráðherrans í þessu efni gangi eftir.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að hæstv. forsætisráðherra hafði enga fyrirvara á yfirlýsingum sínum. Þær voru algerlega skilyrðislausar um að þetta yrði lagfært. Það sýnist þess vegna vera býsna mikil andstaða sem brýtur á bak aftur þennan eindregna vilja forsætisráðherra sem gerir það að verkum að hann nær málinu ekki fram í ríkisstjórn. Ég ítreka því spurninguna hvort Sjálfstæðisflokkurinn standi í vegi fyrir þessu og ef hæstv. forsætisráðherra fengi til þess tilstyrk stjórnarandstöðunnar, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur leitað eftir í öðru máli, væri hæstv. forsætisráðherra þá tilbúinn til að afgreiða þessa leiðréttingu með tilstyrk stjórnarandstöðunnar í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn?