132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:45]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega erfitt að eiga orðastað við þennan hv. þingmann. Málflutningur hans er með þeim hætti að hann er hvorki í þessu máli né ýmsum öðrum sæmandi. (Gripið fram í: ... lítilmannlegt.) Það er mjög undarlegt, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan virðist aldrei geta unnað ráðherrum og þeim sem tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að fá málfrelsi í ræðustól. Þeir þola ekki að hér séu sögð ákveðin orð og byrja þá að æpa og öskra úti í sal. En það liggur alveg fyrir að það hefur verið samið frumvarp um þetta mál í forsætisráðuneytinu og sú afstaða forsætisráðherra liggur fyrir að ef breyta eigi þessum lögum verði að breyta þeim með tillögu frá þeim sömu aðilum og lögðu til breytinguna á sínum tíma. Það voru fulltrúar allra flokka á Alþingi í forsætisnefnd Alþingis. Það liggur fyrir. Og það hefur ekki náðst samkomulag um það. Þrátt fyrir tilraunir til þess hefur ekki náðst samstaða um það. Málið er svo einfalt. (Gripið fram í: Hver stoppar það?) Ég ætla ekki að segja neitt meira um það en það er algerlega rangt að halda því fram að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem stöðvi það mál.