132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:52]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns koma aðeins inn á það mál sem var rætt í andsvörum áðan, þ.e. eftirlaunafrumvarpið svokallaða og breytingar á því. Það er út af fyrir sig rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, að hann hafi látið vinna drög að breytingartillögum við þau lög og kynnt þau fyrir stjórnarandstöðunni skömmu fyrir jólaleyfi ef ég man þetta rétt. Það var afstaða stjórnarandstöðunnar, úr því að farið er að tala um þetta mál þá vil ég segja það hér, í fyrsta lagi að þetta væri allt of seint fram komið, við vildum ekki afgreiða þetta í einhverjum hvelli rétt fyrir jól eins og gert var með frumvarpið sem varð að lögum á sínum tíma og menn höfðu mikið við að athuga. Við töldum einfaldlega að þannig ætti ekki að standa að þessu máli og þar að auki höfðum við efnislegar athugasemdir við frumvarpið og töldum það ekki ganga nægilega langt.

Mér skildist, virðulegi forseti, að það hefði orðið niðurstaðan að það kæmu önnur drög sem við gætum þá skoðað eftir jól en sú hefur ekki enn orðið raunin en það er svo sem ekki öll nótt úti enn í þeim efnum. En þetta vildi ég sagt hafa vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram.

Varðandi frumvarp til laga um kjararáð þá sýnist mér af lestri þess, þó hann sé kannski ekki mjög nákvæmur, að þar sé ágætt mál á ferðinni og það ætti að geta náðst um þetta frumvarp nokkuð víðtæk samstaða á þingi. Ég gagnrýndi það hér, þegar umræðan fór fram í þinginu um síðasta úrskurð Kjaradóms, að ekki væri nógu mikil samfella á milli Kjaradóms og kjaranefndar. Þar vísaði hvor á annan og Einbjörn togaði í Tvíbjörn sem togaði í Þríbjörn og svo vissi enginn hver væri upphafsmaður eða bæri ábyrgð á þeirri bólgu sem yrði í kjörum þeirra sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd. Ég lagði á það áherslu að það yrði að vera ein stofnun sem um þetta fjallaði og mér sýnist að það sé nú orðin raunin að hér sé eitt kjararáð þó það sé eftir sem áður tvískipt og fjalli annars vegar um þröngan hóp, sem eru þjóðkjörnir fulltrúar og dómarar, og hins vegar um aðra sem undir það heyra. En mér sýnist að það sé til mikilla bóta að hafa eitt kjararáð þó að það vinni tvískipt því það á að tryggja það að annar hópurinn viti hvað hinn er að gera og geti ekki skýlt sér bak við aðgerðir annarra. Ég tel því að þetta sé til bóta, virðulegur forseti.

Ég er þeirrar skoðunar, og sagði það líka þegar umræðan var um síðasta úrskurð Kjaradóms, að það ætti að stefna að því að fækka þeim sem heyrðu undir Kjaradóm og kjaranefnd. Það hefur verið gert núna. Hópurinn sem heyrði undir Kjaradóm hefur verið þrengdur og eins er stefnt að því, ef ég skil þetta frumvarp rétt, að kjararáð ákveði hverjir heyri undir ráðið og það muni reyna að vinna að því að fækka þeim aðilum. Ég er t.d. þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að engin ástæða sé til þess að ýmsir sem nú heyra undir kjaranefnd, eins og prestar og prófessorar, geri það. Prófessorar geta einfaldlega samið við sína háskóla og prestarnir við sína kirkju og geta gert kjarasamninga eins og aðrir hópar. Það getur verið að það eigi við um aðra líka sem heyra undir kjaranefnd, að það sé hægt að fækka talsvert í hópnum og mér sýnist að að því sé stefnt.

Þá er skerpt á ákvæðinu um tillit til almennrar launaþróunar í þessu frumvarpi og ég held að það sé líka kostur að það sé gert því eins og við vitum þá var það einmitt sú ákvörðun að Kjaradómur úrskurðaði þeim sem undir hann heyrðu laun sem voru ekki í samræmi við það sem um hafði verið samið á hinum almenna vinnumarkaði skömmu áður sem skapaði það uppreisnarástand sem hér varð skömmu fyrir jól.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að kjararáðinu verði heimilt að ákvarða laun þeirra sem undir það falla sjaldnar en árlega, t.d. einu sinni á kjörtímabili, og launin breytist þess á milli eftir vísitölu. Þetta tel ég að geti verið ágætur kostur hvað varðar þingmenn, að einfaldlega sé úrskurðað um þeirra laun á kjördag og það sé birt daginn eftir kjördag og síðan fylgi það einhverri almennri launavísitölu fram að næsta kjördegi. Ég tel að það sé til bóta að það sé ákvæði inni í þessu frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að þannig sé hægt að haga málum þó það sé auðvitað ekkert í þessu sem segir að það skuli gert.

Þá er kjararáði núna, samkvæmt þessu frumvarpi, gert skylt að birta ákvarðanir sínar og ástæður fyrir þeim opinberlega og á aðgengilegan hátt. Þetta tel ég, virðulegur forseti, að sé mjög mikilvægt atriði. Við höfum talað mikið um gegnsæi í stjórnsýslu og eitt af því sem ég held að hafi valdið þessum óróa og usla skömmu fyrir áramótin þegar Kjaradómur úrskurðaði var að rökin fyrir úrskurðinum lágu ekki fyrir fyrr en nokkrum dögum síðar þannig að menn áttuðu sig ekki á því hvað það var nákvæmlega sem Kjaradómur var að gera og hvaða tillit hann var að taka og hvert hann sótti sína viðmiðun. Ég tel því mjög mikilvægt að þegar kjararáð birtir ákvarðanir sínar geri það grein fyrir þeim opinberlega og rökstuðningurinn fylgi með. Ég tel að það sé mjög margt í þessu frumvarpi sem er til bóta við þessa fyrstu skoðun og ég geri ráð fyrir því að það verði ekki andstaða við þetta frumvarp í okkar hópi. En þetta fer náttúrlega til nefndar og þá verður það skoðað hvort eitthvað þurfi betri skoðunar við en það kemur þá bara í ljós í nefnd. En almennt talað, virðulegur forseti, sýnist mér að þetta frumvarp sé til mikilla bóta og geti tekið á ýmsum þeim annmörkum sem voru á lögunum og fært til betri vegar.