132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[13:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta hv. þingmann. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að það var haldinn fundur um þetta tiltekna mál skömmu fyrir jól og síðan að nýju eftir að þing kom saman eftir áramót. Ég vildi halda því til haga að það var haldinn annar fundur um málið vegna þeirra almennu athugasemda að ekki væri rétt að leggja fram það frumvarp sem hafði verið samið í sambandi við eftirlaunamálið skömmu fyrir jól, en síðan var haldinn annar fundur eftir áramót og að loknum þeim fundi var það mitt mat að ekki væri vilji til þess að flytja það af fulltrúum allra þingflokka á Alþingi eins og var þegar frumvarp var flutt um þetta mál þegar eftirlaununum var breytt. Það liggur alveg ljóst fyrir að það voru fulltrúar allra flokka sem beittu sér fyrir breytingunni á sínum tíma og það hlýtur að vera grundvallaratriði að þeir sömu flokkar séu tilbúnir til að standa að breytingum á málinu.

Ég vildi minna hv. þingmann á það að sá fundur var haldinn í byrjun þings og hún hlýtur að muna eftir því þegar hún rifjar það upp.