132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[13:35]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins fáein orð. Mér líst prýðilega á þetta frumvarp á margan hátt. Ég held að þessi endurskoðun á lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd hafi verið tímabær og góð.

Ég kem hins vegar upp út af því að ég vil gera athugasemdir við 8. gr. og ég tel að í henni sé innbyrðis ósamræmi sem muni auðvitað koma í ljós þegar á á að herða, það hlýtur að verða.

Aðeins um aðdraganda málsins. Eins og allir muna urðu mikil mótmæli vegna ákvörðunar Kjaradóms fyrir áramótin og eftir þá uppákomu sem því fylgdi var tekin ákvörðun um að endurskoða þessi lög. Ákvörðunin um endurskoðun var einhvers konar svar við mótmælum sem urðu vegna niðurstöðunnar fyrir áramótin. Þess vegna ætti að vera hægt að lesa út úr þessu frumvarpi einhvers konar viðbrögð sem gætu slegið á þá óánægju. Þegar grannt er skoðað þá finnst mér ekki líklegt að þessi ákvörðun, sem er fólgin í því að breyta lögunum með því að setja kjararáð í stað Kjaradóms og kjaranefndar, muni breyta þeim launakjörum sem mótmælt var á sínum tíma, þ.e. fyrir síðustu áramót, vegna þess að þegar 8. gr. er skoðuð þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.“ Svo segir áfram: „Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar.“

Hvað er þarna á ferðinni? Ef 3. og 4. gr. eru skoðaðar þá er þarna mikil flóra sem þarf að gæta samræmis á milli. 8. gr. gengur alveg upp þangað til kemur að síðustu málsgreininni en þar stendur, með leyfi forseta:

„Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Nú vandast málið, hæstv. forseti, vegna þess að þegar menn hafa tekið tillit til og gætt samræmis milli þeirra aðila sem eiga laun sín undir þeim lögum sem hér eru og þurfa svo að láta þau kjör líka taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði þá virðast málin hreinlega hætta að ganga upp. Ég álít því að úr 8. gr. sé hægt að lesa, alveg þangað til kemur að síðustu setningunni, að komin sé upp nákvæmlega sama staða og fyrir áramót og ekki sé ástæða til að halda að laun alþingismanna og dómara hefðu verið metin neitt öðruvísi þó að þessi lög hefðu verið búin að taka gildi. Þá hlýtur að þurfa að svara þeirri spurningu: Er þessi lagasetning í raun og veru nokkurt svar við þeirri óánægju og mótmælum sem urðu vegna kjaradómsins í desember? Svar mitt við því er að svo sé ekki. Ég tel ekki að þetta sé niðurstaða sem komi til móts við þá óánægju. Það kann þó að vera að óánægjan brjótist út með öðrum hætti einfaldlega vegna þess að það hefur verið talað um að t.d. laun alþingismanna gætu verið ákveðin á fjögurra ára fresti en þau yrðu síðan látin halda verðgildi sínu með einhvers konar verðviðmiðun þess á milli. Eftir kosningar sem fara fram á fjögurra ára fresti væri þá gefið svigrúm til að taka út óánægju með hækkanir launa alþingismanna og dómara. En að öðru leyti get ég ekki séð að þessi lagasetning sé neitt svar við mótmælum sem urðu við niðurstöðu Kjaradóms fyrir áramótin.

Ég vil koma þessu á framfæri vegna þess að ég tel ástæðu til að menn horfist í augu við það að mat á þeim launakjörum sem hér er um að ræða er í rauninni ekki líklegt til að verða neitt annað en verið hefur, þó að þessum lögum verði breytt. Það getur orðið betra samræmi á milli þeirra sem eiga þarna undir vegna þess að það var kannski heldur lengra milli kjaranefndar og Kjaradóms en heppilegt var. Þarna ætti að vera tryggt að vel væri að málum staðið og mér finnst hugsunin í þessu öllu vera ágæt og ég styð málið en ég vil koma því á framfæri að ég tel ekki að það sé ástæða til að halda að mat á launum muni verða mjög frábrugðið því sem áður var en vísa þó til þess sem ég sagði áðan um samræmið.