132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[14:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Almennt ber að fagna þessu frumvarpi. Það er árangur starfs sem farið hefur fram innan lands og undir leiðsögn evrópskra reglna. Ég tek undir þann jákvæða tón sem fyrri ræðumaður, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, viðraði fyrir hönd Samfylkingarinnar gagnvart þessu.

Einu tilteknu máli vildi ég gjarnan fá skýringu á. Það varðar verðandi 27. gr., næstsíðustu málsgrein hennar sem er að finna á bls. 3 í prentaðri útgáfu frumvarpsins. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ekki þarf að greiða fyrir endurnot á upplýsingum, sem falla undir ákvæði þessa kafla og eru háðar höfundarétti ríkis og sveitarfélaga, umfram það sem segir í 6. mgr., nema lög mæli sérstaklega svo fyrir.“ — Í 6. mgr. eru þjónustugjöld vegna vinnu við að útvega upplýsingarnar og reiða þær fram.

Það eru þessi síðustu orð, síðasti setningarhlutinn: „nema lög mæli sérstaklega svo fyrir“, sem ég vil spyrja um. Hvaða almennu forsendur skapa löggjafanum þá heimild að mæla sérstaklega fyrir um að ákveðnar upplýsingar séu háðar gjaldtöku? Hvaða upplýsingar er um að ræða eða hvers konar upplýsingar er hægt er að mæla fyrir um í sérlögum að heimta megi sérstakt gjald fyrir, umfram það þjónustugjald sem um er rætt.

Þegar maður fer í athugasemd um þessa grein á bls. 14 er þar ekkert frekar sagt. Það er aðeins endurtekið að önnur lög geti mælt svo fyrir að greiða þurfi fyrir endurnot á upplýsingunum. Það er ekki skýrt út með hvaða hætti það er. Það virðist almennur réttur þingsins að taka hvaða upplýsingar sem þinginu sýnist til handargagns og mæla fyrir um að sett séu á þau gjöld. Þá spyr maður auðvitað: Getur þá þingið, með ríkisstjórninni væntanlega, komið því svo fyrir í kreppu að fleiri og fleiri gögn eða upplýsingar séu gjaldlagðar, þ.e. settur á þær skattur, en ekki þjónustugjald, eftir því sem því sýnist? Eru engar reglur sem mæla fyrir um að sérstök skilyrði þurfi að uppfylla til að þetta sé hægt?

Það er ljóst í tilskipuninni, í 6. gr. tilskipunarinnar á bls. 20 í þessu plaggi, að þar er ekki miðað við að menn hagi sér svona. 6. greinin heitir „Meginreglur um gjaldtöku“ í tilskipun Evrópusambandsins og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef gjald er tekið skulu heildartekjurnar af því að láta í té og leyfa endurnotkun gagna ekki vera meiri en kostnaðurinn við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni.“

Síðan er eitthvað um kostnaðartengingu o.s.frv. en hér er beinlínis mælt fyrir um að meginreglan sé sú að um þjónustugjöld sé að ræða. Þetta virðist hæstv. forsætisráðherra, flutningsmaður frumvarpsins, taka undir. Hann vill jafnvel ganga lengra, eða sú nefnd sem hann styðst við. Það er sérstaklega tekið fram í almenna V. kaflanum á bls. 9 í hinni prentuðu útgáfu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sú stefnumörkun sem fram kemur í þessu frumvarpi leggur áherslu á hóflega verðlagningu á opinberum upplýsingum og gengur þannig að hluta til lengra en 6. gr. tilskipunarinnar.“

Ég skil það þannig, og það hlýtur að eiga að skilja það þannig, að frumvarpshöfundarnir og flytjandinn telji að það gangi lengra gegn gjaldtöku, í átt að því að aflétta gjaldtöku en 6. gr. tilskipunarinnar leyfir.

Þarna segir einnig, með leyfi forseta:

„Þá leiðir einnig af þessari stefnumörkun að hið opinbera taki almennt ekki sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera kann að eiga ýmist höfundarrétt að eða rétt skv. 50. gr. höfundalaga.“

Ég reyndi að finna staðinn í athugasemdum við frumvarpið, fann hann ekki en þetta er ákveðin stefna sem kemur fram. Ég tel að það sé góð stefna. Hún er sú að ekki einungis af lýðræðislegum ástæðum séu þessar opinberu upplýsingar látnar í té gegn vægu gjaldi, þ.e. þjónustugjaldi, heldur einnig og ekki síður vegna þess að þær upplýsingar sem sækja má í opinbera gagnabanka af einhverju tagi geta verið mjög mikilsverðar fyrir atvinnulíf og starfsemi af öllu tagi, sérstaklega á okkar stafrænu tímum, í því samfélagi sem nú er að verða til og við höfum leyft okkur að kalla þekkingarsamfélag, sem við stefnum öll að þótt deilur standi um það hvernig það eigi nákvæmlega að vera. Um það er fallegur kafli einhvers staðar í frumvarpsgögnunum sem ég vísa til eftir minni.

Það má kannski enn fremur minna beinlínis á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem til er á prenti, þ.e. „Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið“ frá 1996. Í hana er vísað á bls. 6 í prentuðu útgáfunni, almennum kafla III, 2. gr., með leyfi forseta:

„Tryggt verði fullt jafnræði milli opinbers reksturs og einkareksturs á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar. Stjórnvöld auðveldi, með hjálp upplýsingatækninnar, aðgang að opinberum upplýsingum og þjónustu, til að jafna stöðu einstaklinga og fyrirtækja óháð búsetu eða efnahag. “

Það má enn fremur taka fallega kafla á bls. 4, í I. kafla almennra athugasemda við lagafrumvarp þetta. Þar segir út frá 6. gr., með leyfi forseta:

„Frumvarpið gengur þó að hluta til lengra en tilskipun ESB með víðtækari stefnumótun um endurnot opinberra upplýsinga sem m.a. felur í sér“ — þarna kemur auðvitað ástæðan fyrir því sem ég sagði áðan, túlkun minni sem ekki þarf lengur að vera túlkun — „þrengri gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám.“

Síðan kemur þessi setning sem er sérlega athyglisverð: „Einnig er kveðið á um að ríkið taki ekki gjald af höfundarétti sínum af þessum upplýsingum. Er þetta til þess gert að reyna að auka enn frekar endurnot opinberra upplýsinga.“

Þá kemur aftur að þessu. Þrátt fyrir alla þessa vel hugsuðu stefnu sem hér kemur fram, sem er margítrekuð í athugasemdum við frumvarpið, enda byggð á 6. gr. tilskipunarinnar, er sagt að Alþingi geti sem sé með lögum víkkað gjaldið út aftur þannig að ekki sé um þjónustugjald að ræða heldur í raun skatt sem komi þá eins og sértekjur inn í þær stofnanir sem um er að ræða. Það er gert í áður tilvitnaðri verðandi 27. gr. án skýringa.

Á bls. 23, í lok athugasemdanna, eru tilteknar nokkrar stofnanir sem nú hafa miklar sértekjur af sölu upplýsinga úr gagnaskrám sínum. Það er Hagstofa Íslands, úr þjóðskrá 75 millj. kr. árið 2002; Fasteignamat ríkisins, 20 millj. kr. af upplýsingum úr landskrá fasteigna og 100 millj. kr. að auki frá öðrum hlutum stjórnvalda; Skráningarstofan hf. hafði 28 millj. kr. tekjur af sölu upplýsinga, ótiltekinna og Landmælingar Íslands eru nefndar síðastar en þær höfðu 11 millj. kr. í tekjur af sölu upplýsinga á þessu ári.

Í gærkvöldi ræddum við um nýtt frumvarp frá umhverfisráðherra um Landmælingar. Ég verð að segja, þótt skömm sé að, að ég vissi ekki að frumvarpið væri komið fram sem við erum nú að ræða. Ég hafði það þess vegna ekki í höndunum þegar við áttum orðastað um frumvarp umhverfisráðherra um nýskipan Landmælinga, sem er ágætt frumvarp á margan hátt. En í því frumvarpi er áfram gert ráð fyrir að Landmælingar geti heimtað gjald fyrir upplýsingar sem þær selja frá sér. Í 7. gr. þess frumvarps eru þrír tekjuliðir nefndir. Tveir af þeim eru þjónustugjöld en sá fyrsti hljóðar svo að Landmælingar Íslands afli sér tekna, með leyfi forseta:

„Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins, sbr. 5. og 6. gr.“

Þetta stangast auðvitað á við það sem ég var áðan að lesa upp úr athugasemdum forsætisráðherra við frumvarp sitt, að einnig sé kveðið á um að ríkið taki ekki gjald af höfundarrétti sínum af þessum upplýsingum.

Í landmælingafrumvarpi umhverfisráðherra sem flutt er á sama tíma, með svipuðu málsnúmeri, og rætt kvöldið áður en við ræðum frumvarp forsætisráðherra, er kveðið á um forsendulausa heimild nema að því leyti er varðar tilvísunina í höfundarréttinn. Sú tilvísun er sem sé efnislega gagnstæð yfirlýsingu forsætisráðherra í athugasemdum við frumvarp hans.

Nú skal þess getið að hugsanlega kann að vera um að ræða, hjá Landmælingum og öðrum þeim stofnunum sem nefndar eru hér, annan höfundarrétt en höfundarrétt ríkisins. En á því er líka tekið í frumvarpinu með skýrum hætti. Það er auðvitað ekkert leyfi til þess. Það hafa ríkisstofnanir ekki og almannavaldið hefur ekkert leyfi til að selja afnot af efni sem háð er öðrum höfundarrétti án þess að viðkomandi höfundum sé það bætt.

Þetta vildi ég spyrja um. Mér finnst vanta í frumvarpið skilyrði fyrir því hvaða upplýsingar hægt er að selja án þess að um þjónustugjald sé að ræða þannig að sértekjur myndist hjá stofnuninni. En slík sala er ekkert annað en skattur á þá sem kaupa, framleiðendur annars efnis og síðan kaupendur þess efnis sem framleitt er. Hugsunin virðist standa þvert gegn þeirri meiningu sem ég, hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin og sennilega allt þingið erum sammála um, að best sé að hinar opinberu upplýsingar standi sem flestum til boða þannig að þær verði aflvaki og eldsneyti framleiðslu, atvinnustarfsemi, rannsókna og nýsköpunar á Íslandi.