132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[14:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þótt ég sé nú hortugur og ókurteis er ég ekki að biðja hæstv. forsætisráðherra að gera mín orð að sínum. Ég er ánægður með það sem hann sagði hér, a.m.k. í fyrra andsvari sínu.

Það er ekki samræmi á milli þessara tveggja frumvarpa eins og ég hef sýnt og þess vegna þarf að skýra það sérstaklega þegar brugðið er út af meginstefnunni í frumvarpi forsætisráðherra. Því miður, eins og ég skýrði áður, hafði ég, og kannski fleiri, ekki séð eða kynnt okkur frumvarp forsætisráðherra nægilega áður en við tókum þátt í þessari umræðu en það verður auðvitað gert í nefndinni. Ég spyr hins vegar forsætisráðherra um það almennt — það var hluti af spurningunum mínum í upphafi: Hvers eðlis þurfa þær upplýsingar að vera sem hægt er að setja þau sérlög um sem ganga gegn meginstefnu frumvarpsins sem hann flytur, þ.e. að heimt sé af þeim þjónustugjald, við skulum orða það hlutlaust og segja endurgjald sem er umfram þau þjónustugjöld sem við erum öll sátt við að eðlileg séu á upplýsingarnar?