132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[14:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Svo að það sé ljóst voru það ekki mín orð að hv. þingmaður væri hortugur og ókurteis, hann hefur alls ekki verið það í þessari umræðu. Ég veit ekki af hverju hann kaus að gefa sjálfum sér þessa einkunn af þessu tækifæri, mér fannst það óþarfi. Að því er varðar þessi sérlög er hér fyrst og fremst verið að vísa til þess að það þarf að breyta ákveðnum lögum sem eru í gildi. Ég vænti þess að stefnumörkunin sé alveg skýr, enda væri það út í hött að setja þessi lög ef svo mætti fara fram hjá þeim í öðrum lögum að vild. Þá væri miklu betra að láta þetta eiga sig.

Það er hins vegar staðreynd að þetta er fyrir hendi í lögum, t.d. að því er varðar Landmælingar ríkisins, og því þarf að breyta til samræmis við þetta frumvarp. Það er fyrst og fremst það sem vitnað er til.

Síðan koma ýmis önnur undantekningartilvik fyrir í þessu frumvarpi. Það er náttúrulega ljóst að í sumum tilvikum er um að ræða ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki, í samkeppnisrekstri þar sem er beinlínis vikið frá. Þar má nefna frumvarp sem hér liggur fyrir á Alþingi, um Ríkisútvarpið. Sú stofnun er í samkeppni við aðrar stofnanir, það er ljóst. Síðan er um það að ræða að ef við deilum höfundarrétti með einhverjum öðrum þá gilda aðrar reglur, eins og skýrt kemur fram í frumvarpinu.