132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[14:36]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að leita mér upplýsinga vegna þess sem stendur í athugasemdunum með frumvarpinu um Vísinda- og tækniráð — en ég er reyndar á þeirri skoðun að það sé mjög gott mál og sú starfsemi sem þar er unnin sé bæði nauðsynleg og hafi tekist vel að því leyti til sem ég hef af henni heyrt.

Það stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Að frumkvæði Vísinda- og tækniráðs hefur verið unnið að sameiningu rannsóknastofnana.“

Og síðan svolítið neðar í textanum þar sem er verið að vitna til hvaða stofnanir er átt við:

„Einnig var fyrirkomulag stofnana iðnaðarráðuneytisins tekið til endurmats og er niðurstaðan sú að sameina beri Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Byggðastofnun í nýja stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.“

Ég spyr hvort Vísinda- og tækniráð hafi nokkurn tímann fjallað um sameiningu Byggðastofnunar og hinna stofnananna? Ég spyr líka vegna þess að í gögnum sem fylgdu frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun er vitnað til Vísinda- og tækniráðs og sagt, með leyfi hæstv. forseta:

Vísinda- og tækniráð tók undir niðurstöðu starfshópsins í ályktun ráðsins frá 17. desember. Þar segir að Vísinda- og tækniráð styðji sameiningu Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og beini því til iðnaðarráðherra að vinna áfram að þeirri sameiningu á grundvelli greinargerðar starfshóps iðnaðarráðherra um tæknirannsóknir með áherslu á náin tengsl við háskóla.

Þarna er hvergi talað um Byggðastofnun og hennar starfsemi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur Vísinda- og tækniráð nokkurn tíma fjallað um þá sameiningu?