132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það komu nokkrar spurningar til mín frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Fyrsta sem hún spurði um voru fjárframlög til þessa málaflokks. Nú er það svo með þennan málaflokk eins og flesta aðra að það skortir ávallt fé. Ég vil hins vegar nefna að á síðustu þremur árum hafa framlög til samkeppnissjóða aukist um helming. Það hefur því verið mikið áhersluatriði í starfi núverandi ríkisstjórnar. Það er líka rétt að halda því til haga þegar því er haldið fram að ekki hafi verið áhersluatriði hjá núverandi ríkisstjórn að auka fjármagn til nýsköpunar, rannsókna og háskólastarfsemi að síðan 1998 hafa framlög til háskóla í landinu aukist að raungildi um 80% á sama tíma og raungildi fjárlaganna hefur aukist um 20%. Þetta er sá málaflokkur þar sem hefur orðið langmest aukning. Auðvitað er þetta að verulegu leyti vegna breyttra áherslna og aðstæðna í þjóðfélaginu, gífurlegrar fjölgunar nemenda. En það er algerlega rangt þegar því er haldið fram að þetta hafi ekki verið áhersluatriði hjá núverandi ríkisstjórn.

Eitt af því sem hefur verið fjallað um í Vísinda- og tækniráði er starfsemi Háskóla Íslands og sú stefnumótunarvinna sem þar fer fram. Undir þá stefnumótunarvinnu er tekið í drögum að stefnumótun fyrir Vísinda- og tækniráð fyrir næstu þrjú ár. Ég tel þess vegna mikilvægt að hv. þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar kynni sér þá mikilvægu stefnumörkun sem þarna fer fram þar sem koma saman fulltrúar ráðuneyta, fulltrúar atvinnulífs, háskólastofnana og rannsóknastofnana. Ríkisstjórnin hefur tekið mikið tillit, eftir því sem nokkur kostur er, til þeirrar stefnumörkunar sem þarna hefur farið fram.

Ég vildi aðeins segja um þær efasemdir sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum um að Byggðastofnun sé hluti af þessu máli í víðara samhengi að ég er þeirrar skoðunar að menntun, vísindi, nýsköpun sé mikilvægasta mál ekki bara alls landsins heldur kannski sérstaklega landsbyggðarinnar. Það er afar þýðingarmikið að halda áfram að byggja upp það háskólastarf og þau þekkingarsetur sem hafa verið í uppbyggingu úti um land og er góður vísir að. Þess vegna finnst mér lykilatriði að þetta starf tengist einmitt Vísinda- og tækniráði sem verður Vísinda- og nýsköpunarráð. Ég hefði talið að ekkert gæti orðið landsbyggðinni jafnmikið til framdráttar og það starf.

Þess vegna er ég nokkuð undrandi á því af hverju menn sjá ekki það jákvæða í að tengja þetta betur saman. Ég hefði haldið að ekki síst landsbyggðin og hinar dreifðu byggðir gætu notið góðs af því vegna þess að það verður að viðurkennast að þessi starfsemi sem hér er verið að tala um hefur verið í meira mæli til umfjöllunar á höfuðborgarsvæðinu og er mikilvægt að breiða hana sem mest út um allt land. Það er hugsunin á bak við þetta.

Að því er varðar spurningu hv. þingmanns um hátækniiðnaðinn þá held ég að ég muni það rétt að svokallaður hátækniiðnaður sé talinn vera um 7–8% af okkar atvinnustarfsemi í dag. Það var nefnt á síðasta fundi Vísinda- og tækniráðs að ekki væri óeðlilegt að hafa það markmið að þetta hlutfall verði komið í 15% um eða eftir 2010.

Mér finnst eðlilegt að við setjum okkur markmið í því sambandi og eitt af því sem verið er að fjalla um í Vísinda- og tækniráði er með hvaða hætti við gætum staðið sem best að því. Þar hefur jafnframt verið fjallað um með hvaða hætti er best að standa við bakið á nýsköpun í fyrirtækjum í landinu, m.a. hvort hægt sé að gera það með skattalegum ráðstöfunum. Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar að slíkar leiðir séu ákveðnum vandkvæðum bundnar vegna þess að það er oft erfitt að skilgreina á milli þess hvað er nákvæmlega nýsköpun og hvað er það ekki. Hvað eru rannsóknir og þróun? Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að fyrirtækið Íslensk erfðagreining er eingöngu rannsóknar- og þróunarfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki þannig að öll útgjöld þess fyrirtækis eru af þeim toga. Þetta er eitt af því sem hin norska leið hefur tekið tillit til. Þar er sett ákveðið hámark vegna þess að menn hafa ekki talið að hægt sé að skilja þarna algerlega á milli og verulegum vandkvæðum bundið.

Þetta atriði er til athugunar hjá ríkisstjórninni og er verið að fara yfir það. Hæstv. fjármálaráðherra hefur komið með yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það er til sérstakrar athugunar í fjármálaráðuneytinu.

Af því er varðar síðustu spurninguna hvort ég sé því fylgjandi að það verði aðeins eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er mál sem er núna til athugunar og er verið að fara yfir það. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sé verulegum vandkvæðum bundið að allir atvinnuvegirnir verði í einu og sama ráðuneytinu. Ég ætla ekkert að útiloka það. En ég tel að atvinnumálin séu afar þýðingarmikil mál og það þurfi að breyta og sameina atvinnuvegaráðuneytin. Þar með talið erum við að tala um nýsköpun sem ég tel að þurfi að tengjast atvinnuvegunum í mjög ríkum mæli. Nýsköpunarmálin tengjast að sjálfsögðu líka menntun og rannsóknum á sviði allra atvinnuveganna og mjög náið menntamálaráðuneytinu.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það þurfi að sameina þessi mál betur en mér finnst að minnsta kosti í fyrsta áfanga ekki ráðlegt að flytja það allt saman í eitt ráðuneyti þó ég ætli ekki að útiloka það.

Ég vænti þess að með þessu hafi ég svarað spurningum hv. þingmanns.