132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Suður-Kóreu.

671. mál
[15:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það yrði ákaflega mikilvægt fyrir Íslendinga, ekki síst með tilliti til uppbyggingarinnar og hins hraða vaxtar í hagkerfi Kína, að okkur tækist að gera slíkan tvíhliða viðskiptasamning. Það er fagnaðarefni að Kínverjar leggi svo mikla áherslu á að halda góðum tengslum við okkur að þeir hafi frumkvæði að því að gera slíkan samning. Það er hægt að sjá vissar ástæður fyrir því að þeir kjósa að fara þessa leið en ekki í gegnum EFTA.

EFTA hefur jafnan reynt að fylgja eftir samningum sem Evrópusambandið hefur gert við ýmis ríki. Ég held að EFTA hafi ekki gert samninga við nokkurt ríki eða ríkjasvæði sem ESB hefur ekki áður gert slíkan samning við. Ef Íslendingar næðu svona samningi við Kína væru þeir með vissum hætti búnir að ná ákveðnu forskoti á ESB. Á meðan við erum í EFTA og utan ESB er ég þeirrar skoðunar að við eigum að gera allt sem við getum til að bæta okkar viðskiptastöðu. Þetta er góð leið að því.

Ég velti síðan upp, frú forseti, þeim möguleika að ef þetta gerist þá gæti það hugsanlega veikt EFTA. Á sínum tíma, þegar ég starfaði á vettvangi EFTA fyrir Alþingi Íslendinga og í ljós komu þessir hnökrar sem erfitt var að fjarlægja á gerð fríverslunarsamnings við Kanada af EFTA hálfu, var ég ákafur talsmaður þess að Íslendingar gerðu það bara sjálfir. Þá guldu menn innan EFTA varhuga við því. Þeir töldu að ef Íslendingar færu þá leið að gera slíkan samning væru þeir búnir að brjóta sig frá EFTA og það gæti veikt möguleika EFTA í framtíðinni. Það eru út af fyrir sig rök. Mér finnast þau ekki veigamikil.

Það er hins vegar alveg ljóst að við erum búin að gefa ákveðinn tón með því að reyna að ná tvíhliða samningi við Kína. Mér finnst því ekkert að því að við förum þá leið við aðrar þjóðir þar sem ekki hefur tekist á ná slíkum samningi gegnum EFTA. Samningurinn við Kanada á sér langa sögu. Það er, held ég, fullreynt. Hæstv. ráðherra sagði að það væri komin ný ríkisstjórn í Kanada. Það eru komnar þrjár nýjar ríkisstjórnir, muni ég rétt. Alla vega þrír nýir forsætisráðherrar í Kanada frá því við hófum þetta mál fyrst. Það gengur hvorki né rekur. Það er mál sem er ekki okkur að kenna. Það er mál sem tengist skipasmíðum Norðmanna og deilum Norðmanna og Kanada sem eiga í harðri samkeppni á því sviði. Ég held þess vegna að það sé farsælt fyrir okkur að feta í sömu slóð varðandi Kína. Ég held að við eigum að notfæra okkur þessa miklu vild sem við eigum að mæta hjá Kanadamönnum og eigum að reyna að koma svona samningi á. Ég held að það skipti máli.

Mig langar að varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra: Telur hann að ef við förum í svona mál einir án atbeina EFTA geti það með einhverjum hætti veikt þau samtök?