132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Fullgilding Hoyvíkur-samningsins.

683. mál
[15:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir þeirri þingsályktunartillögu sem ég áður gat um, um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

Frá 1993 hefur verið í gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og Færeyja. Sá samningur er hefðbundinn fríverslunarsamningur og var vörusvið hans takmarkað við viðskipti með iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Í ljósi hinna nánu tengsla milli Íslands og Færeyja og vaxandi viðskipta á milli þjóðanna var áhugi meðal beggja aðila á að dýpka og breikka viðskiptasamstarf þjóðanna.

Af þeim sökum hófust viðræður um gerð nýs viðskiptasamnings milli Íslands og Færeyja vorið 2003. Lauk þeim með undirritun samningsins í Hoyvík í Færeyjum hinn 31. ágúst 2005.

Markmið Hoyvíkur-samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Tekur samningurinn til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga, fjárfestinga og staðfesturéttar. Þá er í samningnum að finna ákvæði um samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoð og opinber innkaup. Megininntak samningsins er að Íslendingar og íslensk fyrirtæki skuli njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar – og gagnkvæmt.

Þá er einnig vert að nefna að samningurinn mótar þau tímamót að þetta er fyrsti samningur sem Ísland gerir sem mælir fyrir um fulla fríverslun með landbúnaðarvörur. Má því segja að hér sé á ferðinni víðtækasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur gert fram til þessa.

Framkvæmd samningsins skal vera í höndum sameiginlegrar nefndar samningsaðila. Jafnframt mælir samningurinn fyrir um stofnun ráðs samningsaðila sem skipað skuli ráðherrum frá Íslandi og Færeyjum sem er ætlað að vera pólitískur hvati við framkvæmd samningsins. Með samningnum er að öðru leyti ekki komið á fót sérstökum eftirlitsstofnunum með framkvæmd hans.

Viðskipti milli Íslands og Færeyja hafa aukist á undanförnum árum. Í dag eru Færeyjar mikilvægur og vaxandi markaður fyrir íslensk fyrirtæki. Vonir standa til þess að Hoyvíkur-samningurinn muni efla enn frekar viðskipti milli landanna tveggja jafnframt því sem honum er ætlað að skapa ramma utan um aukna samvinnu milli landanna á ýmsum öðrum sviðum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.