132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir eljusemina við vinnuna í þessum málaflokki og fyrir mjög góða framsöguræðu. Ég verð að segja að mér rann til rifja deyfðin og áhugaleysið sem skein af hæstv. forsætisráðherra í ræðu hans rétt í þessu. Mér finnst að forsætisráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar þurfi að tala um þessi mál, málefni barna og ungmenna hér í landinu, af meiri ástríðu en hæstv. ráðherra gerði núna. Ég er kannski ekki sú manneskja sem á að gefa einkunnir í þessum stóli og auðvitað er ekki gott að vera að gera slíkt en ég verð að viðurkenna að þessar ofnotuðu úrlausnir, nefndaseta, endalaus nefndaseta í málefnum barna, eru bara orðnar úreltar og það kemur fram í þessari skýrslu sem við erum að ræða. Það er verið að kalla á aðgerðir, öflugar, og það er ekki nóg að heyra hæstv. forsætisráðherra segja: Við hljótum alltaf að vera að vinna að málefnum barna á hverjum degi.

Auðvitað erum við að því. En við gerum ekki nóg. Það er svo víða pottur brotinn og það er svo nauðsynlegt að þessi ríkisstjórn taki til hendinni á afmörkuðum sviðum. Það kemur fram í þessari skýrslu hvar helst þarf að taka til hendinni. Og það þarf aðgerðir. Hvaða flokkur er að reyna að segjast vera framkvæmdaflokkurinn í Reykjavíkurborg núna? Er það ekki Framsóknarflokkurinn? En hvar eru framkvæmdirnar í málefnum t.d. geðfatlaðra barna? (Gripið fram í.) Málefni geðsjúkra barna eru okkur ofarlega í huga. (Gripið fram í.) Ja, ég bara nefni þetta af því að geðsjúku börnin eru mér mjög ofarlega í huga. Við vitum að biðlistar á BUGL eru orðnir yfirfullir, það er hætt að taka börn á biðlista. Börnin eru jafnvel vistuð á fullorðinsgeðdeild ef neyðarinnlögn á barnageðdeild krefst þess að losa þurfi rúm. Við þekkjum deilur við sérfræðilækna um þjónustu sem bitnar á illa stöddum börnum og nú síðast heyrðum við að enginn einstaklingur væri í námi í barna- og unglingageðlækningum og ástæðan er sögð vera hin vonlausa staða sem málefni barna og ungmenna (Forseti hringir.) með geðraskanir eru í. (Forseti hringir.) Það eru þessi mál sem hæstv. forsætisráðherra á að vera að taka til skoðunar. Við krefjum hann svara um úrlausnir.