132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að taka þetta mál til umræðu og vekja athygli á þörfinni á að taka þennan málaflokk til gagngerrar endurskoðunar. Það er einfaldlega hægt að vitna í Bændablaðið, ekki ómerkara rit, en þar sjá menn að úrbóta er þörf. Þar var frétt af því að fámennir skólar reka sig á að börn með þroska-, atferlis- og geðraskanir koma í vaxandi mæli í sveitaskólana án þess að sérstaklega sé gert ráð fyrir því. Sent hefur verið erindi til Sambands íslenskra sveitarfélaga til að spyrja hvað er til ráða.

Það sýnir kannski í hnotskurn vanda málaflokksins að menn láta bara reka á reiðanum. Það kom skýrsla árið 2001 og síðan var skýrslan sett í aðra nefnd. Að vísu segir hv. formaður þeirrar nefndar, Drífa Hjartardóttir, að þessi skýrsla sé afskaplega góð. En síðan á ekkert að framkvæma af tillögum skýrslunnar. En mér finnst hún mjög hógvær þegar hún segir að hún sé bara ánægð með að engar framkvæmdir hafi orðið í kjölfar skýrslunnar, nema að taka skýrsluna fyrir í nýrri nefnd. Þar vonandi gagnast hún til góðra verka.

En þetta finnst mér lýsa afskaplega mikilli hógværð. Mér finnst hógværðin þó fullmikil í þessum mikilvæga málaflokki, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir í einu fyrsta áramótaávarpi sínu að í þessum málaflokki ætti að taka til hendinni. En niðurstaðan virðist því miður sú að setja eigi þennan málaflokk í enn eina nefndina. (Forseti hringir.) Ég er á því að þessi málaflokkur eigi betra skilið, (Forseti hringir.) frú forseti. (Forseti hringir.)