132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:20]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þessa umræðu og ræðu hæstv. forsætisráðherra. Skýrslan er vel unnin og nefndin tiltekur mörg mikilvæg mál. Það sem ekki síst stendur upp úr er að ríkisstjórnin hefur unnið að mörgum málum sem snerta málaflokkinn. Ég vil t.d. minnast á greiðslur til foreldra langveikra barna, fjölskyldunefnd forsætisráðherra, verkefni um verndun bernskunnar, stórauknar barnabætur o.s.frv.

Það er mikilvægt að ná fram heildstæðri samvinnu allra aðila um málefni barna. Þar er þáttur foreldra og samfélagsins stór. Kerfið skal hafa það að leiðarljósi að fjölskyldan sé númer eitt. Það þarf að styðja við hana. Við verðum að gæta okkar á því að sjúkdómavæða ekki vandamálin heldur mæta þeim þar sem þau eru, hvort sem er í skóla eða á heimili. Við þurfum því enn betri samþættingu skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu og að því er unnið.

Heilbrigðisráðuneytið hefur brugðist við þessu með því að mynda þverfaglegt teymi fagfólks sem sinnir börnum og ungmennum. Slíkt samstarf gengur vel, til að mynda í Grafarvogi. Með þessu vinna ólíkir aðilar saman að því að nálgast vandann og styðja við fjölskyldur. Í dag var hæstv. heilbrigðisráðherra einmitt staddur í Reykjanesbæ, þar sem kerfið verður einnig tekið upp. Það er verið að vinna á þessum nótum víða um land.

Ég mótmæli orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um deyfð og sinnuleysi hæstv. forsætisráðherra. Hann fór í máli sínu yfir það sem ríkisstjórnin hefur gert til að vinna að málefnum barna. Hv. þingmaður talaði um aðgerðir framsóknarmanna og Framsóknarflokksins í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að Vinstri grænir sitji einnig við stjórn í Reykjavíkurborg og við séum öll afar stolt af okkar verkum. Ég veit ekki alveg hvaðan sá málflutningur kemur.

Hæstv. forsætisráðherra setti málefni fjölskyldunnar í forgang og verkin tala sínu máli.