132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:24]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðu mína á að lýsa yfir undrun minni á ræðum þingmanna stjórnarandstöðunnar. Hér er um þverpólitískan málaflokk að ræða og ég tel ekki gott að fólk reyni að slá pólitískar keilur í þessu sambandi. Ég held að það hljóti að vera sammerkt með okkur öllum að vilja hag barna okkar og ungmenna sem mestan. Ég þakka þó hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að færa þetta mál til umræðu.

Í október árið 2001 skipaði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sjö manna nefnd sem undirbúa átti samræmda og heildstæða opinbera stefnu í málaflokknum. Fyrir þessari nefnd fór hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Drífa Hjartardóttir. Ég hef farið allvel yfir skýrsluna og tel nefndina hafa unnið gott starf að stefnumótun til framtíðar í málefnum barna og unglinga.

Í skýrslunni eru markmið og framkvæmdir tíundaðar í nokkrum ferlum, svo sem afskiptum hins opinbera af málefnum barna og unglinga, foreldrahæfni, heilsugæslu í skólum, börnum með geð- og atferlisraskanir, fátækum barnafjölskyldum, börnum útlendinga og hælisleitenda, og að síðustu viðmóti við börn. Allir þessir undirflokkar eru jafnmikilvægir en ég vil þó nota tækifærið og fjalla um þau mikilvægu markmið sem við Íslendingar eigum að tryggja með skipulegum framkvæmdum fyrir börn útlendinga og hælisleitenda. Þar ber hæst, eins og segir í skýrslunni, að tryggja fjármuni og mannafla til öflugrar fræðslu og íslenskukennslu í gegnum menntamálaráðuneytið. Tryggja ber þátttöku foreldra í skólastörfum barna sinna. Fræðsla um fjölmenningu verði stórlega efld. Tryggja ber túlkaþjónustu þegar hennar er þörf í mikilvægum samskiptum aðstandenda og/eða barna við opinberar stofnanir sem lúta að velferðarmálum.

Að lokum tel ég rétt að að rifja upp orð hæstv. forsætisráðherra þar sem hann áréttar að skýrsla nefndarinnar sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir fór fyrir mun áfram nýtast í þeim störfum sem fjölskyldunefndin hefur (Forseti hringir.) á borði sínu í dag. Ég hef trú á starfi hennar.