132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:29]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það veldur mér miklum vonbrigðum þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala um, og virðast meina það, að enginn hafi áhuga á málefnum barna og ungmenna og málefnum fjölskyldunnar nema þeir. (Gripið fram í.)

Hver haldið þið að trúi þessu? Ég trúi að hver einasti þingmaður á Alþingi hafi áhuga á þessum málefnum. (JóhS: Hvar er framkvæmdaáætlunin?) Framkvæmdaáætlun, kallar hv. þingmaður ávallt á. Er ekki aðalatriðið það sem verið er að gera? Ég minni hv. þingmann á að þegar hún fór úr ríkisstjórn og hennar flokkur 1995 var atvinnuleysi hér á landi milli 6–7%. (MÁ: Kárahnjúkavirkjun, er það svarið?) Hvað ætli það hafi nú skipt máli fyrir fjölskyldurnar í landinu hve margir gengu hér atvinnulausir? Ætli það hafi ekki skipt nokkuð miklu máli?

Það er alveg rétt sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir sagði, að auðvitað skiptir ráðstöfunarfé, kaupmáttur og atvinna fjölskyldna í landinu jafnvel mestu varðandi það hvernig fjölskyldum og börnum líður. Það ræður mestu um hvað við getum gert fyrir börnin okkar. Það er náttúrlega út í hött að halda því fram, og er ekki samboðið hv. þingmanni, að ekki nokkur maður hafi áhuga á þessum málum nema hv. þingmaður sem hóf þessa umræðu. (Gripið fram í.)

Auðvitað hafa allir hv. þingmenn áhuga á þessu máli. Margt gott hefur verið gert þótt mikið vanti upp á. En það mun alltaf verða þannig. En við skulum líka leggja áherslu á að fjölskyldurnar sjálfar, foreldrarnir, bera mikla ábyrgð og þetta er ekki eingöngu málefni hins opinbera. Það má aldrei taka ábyrgðina af foreldrunum sjálfum.