132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Fullgilding Hoyvíkur-samningsins.

683. mál
[16:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Við tökum aftur til við umræðu um þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins sem ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Danmerkur og heimastjórn Færeyinga gerðu í Hoyvík í ágúst á síðasta sumri.

Ég lýsti fyrr í dag þeirri skoðun að ég tel að við eigum að efla samskipti okkar við Færeyinga eins og hægt er og á alla lund. Við höfðum áður ágætan samning, hefðbundinn fríverslunarsamning við Færeyjar frá árinu 1992. Hann tók einungis til verslunar með sjávarafurðir og iðnvarning. Þessi samningur er hins vegar miklu dýpri og breiðari og má segja að hann taki til allra hugsanlegra viðskiptasamskipta okkar og Færeyinga. Honum svipar að ýmsu leyti til EES-samningsins. Við Íslendingar og fyrirtæki á okkar vegum munum hafa í Færeyjum sömu stöðu og þeir sem þar eru sérstaklega skilgreindir sem Færeyingar samkvæmt þessum samningi. Það er gagnkvæmt, sem er ákaflega gott.

Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að efla tengslin við Færeyjar, ekki bara á viðskiptasviði heldur og á menningarsviðinu og öllum sviðum. Ég tel að þessar tvær þjóðir sem eru svona náskyldar annars vegar, og hins vegar grannþjóð okkar í vestri, Grænlendingar, eigum að hafa eins rík og náin samskipti og hægt er. Þessi samningur mun örugglega greiða fyrir samskiptum þjóðanna. Hann er líka visst fordæmi og lýsir inn í framtíðina að því marki að með honum er tekin upp fríverslun með landbúnaðarafurðir.

Ég tel óhætt að taka undir með hæstv. ráðherra sem sagði, þegar hann mælti fyrir málinu, að þetta væri að öllum líkindum víðtækasti viðskiptasamningur sem við hefðum gert. Ég held að við höfum aldrei gert nokkurn samning við einstaka þjóð eða ríkjasamband sem tekur til svo margra sviða. Að þessu leyti er þetta samningur um viðskiptafrelsi sem ber að hafa sem fordæmi í samskiptum okkar við aðrar þjóðir þegar fram líða stundir. Ég tel að auðvitað eigum við að stefna að því í framtíðinni að hafa frjáls viðskipti með landbúnaðarvarning við aðrar þjóðir, að teknu tilliti til krafna um hollustu og heilbrigðis sem sjálfsagt er að setja fram.

Ég minnist þess að þegar þáverandi utanríkisráðherra Davíð Oddsson fór til Færeyja til að gera þennan merkilega samning þá lýsti hann því í samtölum að þessi samningur sem hér er til umræðu væri þannig úr garði gerður að hægt væri að kippa fleiri þjóðum inn í hann. Hann vísaði þar sérstaklega til Grænlendinga. Ég tel að svona samning eigum við að taka upp við Grænland líka.

Ég er þeirrar skoðunar að samskipti þessara þriggja þjóða, með sem nánustum hætti, geti ekki gert annað en að styrkja þær allar. Við vitum að Færeyingar eru á fullri ferð í átt að því að verða frjáls og fullvalda þjóð. Við vitum líka að innan einhvers tíma, þótt vissulega verði það töluvert seinna en í Færeyjum, munu Grænlendingar krefjast fulls sjálfstæðis. Þeir hafa möguleika á að nota sjálfstæðið sem auðlind eins og við gerðum á sínum tíma. Þeir hafa margvísleg tækifæri til að skapa auð og verðmæti á Grænlandi.

Ég sé fyrir mér framtíð þar sem þessar þrjár þjóðir starfa náið saman á mörgum sviðum, menningarsviði, viðskiptasviði og síðast en ekki síst varðandi fiskveiðar. Ég er eins og menn vita þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég hef talað fyrir því, eins og hæstv. núverandi forsætisráðherra að við myndum ákveðið fiskstjórnarsvæði í norðurhöfum sem geri okkur kleift að hafa fullt sjálfstæði varðandi fiskauðlindina, líka þann þátt hennar að ákveða heildarkvótann sem eins og sakir standa yrði ella alltaf í höndum manna í Brussel. Það var hæstv. forsætisráðherra sem fyrstur kom fram með þessa hugmynd. Undir hana hafa ýmsir tekið og þar á meðal forsætisráðherra Svía.

Við slíkar aðstæður tel ég að þessar þrjár þjóðir gætu orðið sterkari saman, sérstaklega varðandi nýtingu og varðveislu auðlindanna í hafinu. Við höfum gert samninga við þessar tvær þjóðir, eins og þann sem hæstv. ráðherra utanríkismála reifaði fyrr í dag. Þar erum við að aðstoða Færeyinga og þeir okkur. Við höfum gert svipaða og eðlisskylda samninga við Grænlendinga varðandi fiskveiðar og að því eigum við að stefna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því ég sé það ekki í þessari tillögu og ekki í þessum samningum: En var það ekki svo, þegar Davíð Oddsson fór til Færeyja til að gera þennan samning á sínum tíma, að sérstaklega hafi verið reifað að mögulegt væri að Grænlendingar gætu gerst aðilar að þessum samningi ef þeir vildu?

Er eitthvað frú forseti, í samningnum sem við erum að ræða sem opnar á þann möguleika? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það vegna þess að það kom ekki fram í máli hans og ég sé það ekki í þessari tillögu eða í samningnum. En mér þætti vænt um ef hægt væri að staðfesta það.