132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Fullgilding Hoyvíkur-samningsins.

683. mál
[16:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kom í pontu til að lýsa yfir stuðningi við þennan samning og markmið hans sem eru, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Markmið Hoyvíkur-samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Tekur samningurinn til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar; samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Mælir samningurinn fyrir um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs, staðfestustaðar eða upprunastaðar vöru innan efnislegs gildissviðs hans. Þannig skulu Íslendingar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar — og gagnkvæmt.“

Ég tel að hér sé um mikinn tímamótasamning að ræða við nágranna okkar Færeyinga og lýsi yfir miklum stuðningi og ánægju með að þessi samningur skuli hafa verið gerður.

Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að leita beri eftir samkomulagi og samningi við Grænlendinga, nágranna okkar. Hvort hann verði nákvæmlega í þessa veru skal ég ekkert fullyrða um en það væri mjög æskilegt að þjóðirnar í Norður-Atlantshafinu miðju hefðu sem besta gagnkvæma samninga og réttindi. Ég tel að það geti eingöngu orðið þessum eyþjóðum til framdráttar og auki samskipti þjóðanna á öllum sviðum. Ég tel það mjög eftirsóknarvert fyrir okkur, að standa þannig að málum.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég lýsi yfir stuðningi við þennan samning og vænti þess að slíkur samningur verði ef til vill gerður við Grænlendinga á næstunni. Ég spyr að því, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvort eitthvað sé í veginum fyrir því að taka upp viðræður við Grænlendinga sem gætu verið í svipaða veru og þessi Hoyvíkur-samningur.