132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Fullgilding Hoyvíkur-samningsins.

683. mál
[16:43]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að samningur þessi njóti víðtæks stuðnings á hinu háa Alþingi. Ég hlýt að fagna því og þakka þingmönnum sem tekið hafa til máls til að lýsa stuðningi sínum við hann.

Eins og fram kom í máli mínu og fleiri þingmanna er þetta er sennilega víðtækasti samningur sem gerður hefur verið og mest alhliða milli Íslands og annars lands. Það er rétt sem fram kom að honum svipar að nokkru til EES-samningsins, sem eru náttúrulega við miklu fleiri ríki.

Varðandi spurningar þingmanna um hugsanlega aðild Grænlands að þessum samningi þá vil ég bara segja fyrir mitt leyti að ég man ekki hvort það var rætt á þeim tíma að Grænlendingar gætu orðið aðilar að þessum samningi. En ef það er raunhæft og ef þeir óska þess þá get ég ekki ímyndað mér að nokkur maður hefði neitt á móti því, hvorki á Íslandi né í Færeyjum.