132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

685. mál
[16:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Með þingsályktunartillögu þessari, sem ég mæli nú fyrir, er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2005 frá 11. mars 2005, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/22/EB, um mælitæki. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir í meginatriðum að vísa til greinargerðar er fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar. Tilskipunin mælir fyrir um að aðildarríkin setji almennar reglur um aðferðafræði fyrir framleiðslu, markaðssetningu og áreiðanleika mælitækja, sem og prófanir, vottanir og eftirlit með mælitækjum sem um er að ræða í þessari tilskipun.

Eins og segir kallar ákvörðun þessi á lagabreytingar hér á landi. Núgildandi lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, veita ekki fullnægjandi lagaheimild til þess að setja í reglugerðir svo víðtækar og almennar reglur um aðferðafræði varðandi mælitæki, eins og tilskipunin kallar á. Ég hygg að þingmenn minnist þess að á Alþingi hefur verið lagt fram frumvarp um það efni af hálfu viðskiptaráðherra.

Ég legg til, frú forseti, að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til síðari umræðu og utanríkismálanefndar.