132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur um tölvubrot.

692. mál
[16:50]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Með þingsályktunartillögu þeirri er ég mæli nú fyrir er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar samnings um tölvubrot sem gerður var í Búdapest 23. nóvember 2001.

Tilurð samningsins, sem gerður er á vegum Evrópuráðsins, má rekja til ákvörðunar Evrópunefndar um afbrotamálefni haustið 1996 þar sem lýst var yfir nauðsyn þess að refsilöggjöf héldist í hendur við tækniþróun. Þróun upplýsingatæknisamfélagsins þótti kalla á samstillt alþjóðlegt átak svo bregðast mætti við nýjum tegundum afbrota sem ekki tækju tillit til þeirra landamæra sem valdsvið yfirvalda hvers ríkis væri bundið.

Í kjölfar ákvörðunarinnar skipaði ráðherranefnd Evrópuráðsins sérfræðinganefnd sem fékk það hlutverk að vinna að samningi um tölvubrot. Ráðherranefndin samþykkti drög að samningnum haustið 2001.

Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 30. nóvember 2001 en hann öðlaðist gildi 1. júlí 2004. Hinn 1. mars sl. höfðu 38 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað samninginn og þar af höfðu tólf ríki fullgilt hann. Kanada, Suður-Afríka, Japan og Bandaríkin höfðu einnig undirritað samninginn en þessi ríki tóku virkan þátt í gerð hans og öðluðust rétt til að gerast aðilar að honum á sama tíma og aðildarríki Evrópuráðsins. Bjóða má ríkjum sem hvorki eru aðildarríki Evrópuráðsins né tóku þátt í gerð samningsins aðild að honum.

Í inngangsorðum samningsins segir að mikilvægt sé að aðildarríki hans fylgi sameiginlegri stefnu á sviði refsiréttar sem miði að því að vernda þjóðfélagið gegn tölvubrotum, m.a. með því að setja viðeigandi lög og stuðla að samvinnu þjóða á milli. Fram kemur að samningnum sé ætlað að koma til viðbótar öðrum alþjóðasamningum er varða samvinnu á sviði sakamála og aðildarríkin eigi aðild að, og auðvelda málarekstur og öflun sönnunargagna vegna brota sem tengjast tölvukerfum og -gögnum.

Samningurinn um tölvubrot er fyrsti alþjóðasamningurinn sem fjallar um glæpi sem framdir eru um alnetið eða önnur tölvunet og á sérstaklega við um höfundarrétt, fölsun og svik tengd tölvum, barnaklám og brot gegn öryggi tölvukerfa, tölvuneta og tölvugagna. Hann felur einnig í sér heimildar- og málsmeðferðarreglur sem aðildarríkjum ber að innleiða svo koma megi fram rannsókn og saksókn einstaklinga og lögaðila.

Með samningnum er í senn brugðist við nýjum tegundum brota og nýjum tæknilegum aðferðum við framningu þekktra brota sem komið hafa fram samhliða þróun á sviði upplýsingatækni.

Gera þarf breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um meðferð opinberra mála og laga um fjarskipti til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn um tölvubrot leggur aðildarríkjunum á herðar. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur lagt fram á þessu löggjafarþingi frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar.

Ég legg til, hæstv. forseti, að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.