132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Dómstólar og meðferð einkamála.

670. mál
[17:05]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla og á lögum um meðferð einkamála.

Fyrsta atriðið sem mig langar að tæpa á hér við 1. umr. er hið aukna hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara. Hér er svo sannarlega verið að bæta við hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara og segja má að þetta sé mjög efnismikil breyting, hún mun strax snerta viðkomandi mál eftir að þetta frumvarp verður samþykkt. Það ber einnig að vekja sérstaklega athygli á því að þetta frumvarp gerir ráð fyrir að aðstoðarmenn geti lokið málum endanlega og það er nýmæli. Að sama skapi verða aðstoðarmenn dómara einnig með heimild til að úrskurða um gæsluvarðhald. Í eðli sínu er gæsluvarðhald mjög róttækt rannsóknarúrræði. Eðli málsins samkvæmt er um að ræða saklausan mann sem settur er í fangelsi tímabundið vegna rannsóknarhagsmuna. Það er gert ráð fyrir að aðstoðarmenn geti þá úrskurðað um slík úrræði.

Þetta aukna hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara er réttlætt í greinargerð með ýmsum rökum og má þar nefna að þetta á að auka hagræði og skilvirkni. Þá kemur að því hagsmunamati sem við stöndum alltaf frammi fyrir, þ.e. aukið hagræði og skilvirkni eða jafnvel sparnaður versus réttaröryggi. Við þurfum alltaf að hafa þetta í huga. Við sjáum að í greinargerð þessa frumvarps er einnig vísað í að hið nýja fyrirkomulag muni fela í sér tímasparnað fyrir dómara og spara fjármuni. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta vel og vandlega í allsherjarnefnd, ég ætla ekki að fella dóm hér við 1. umr. um hvort þetta sé skynsamlegt eða ekki. Þetta er breyting sem við þurfum að skoða og ég er opinn fyrir því. En við sjáum líka að með þessu aukna hlutverki aðstoðarmanna héraðsdómara verður þetta kerfi hugsanlega svolítið þunglamalegt í ljósi þess að einungis verður hægt að segja aðstoðarmanni héraðsdómara upp með dómi, sbr. 5. gr. Það er að sjálfsögðu til að tryggja sjálfstæði viðkomandi aðstoðarmanns vegna hans nýja og aukna hlutverks. Það má alveg velta því fyrir sér hvort kerfið verði eitthvað þunglamalegt en á móti kemur, sem er mjög mikilvægt, að þessir aðstoðarmenn vegna sinna auknu valdheimilda verða að öllu leyti sjálfstæðir. Ég sé að kjör þeirra eiga m.a. að vera ákveðin af kjaranefnd og væntanlega kjararáði eftir að það frumvarp verður samþykkt sem við ræddum fyrr í dag.

Þetta er mjög áhugaverð breyting. Í 2. gr. frumvarpsins er líka breyting sem gerir ráð fyrir að fresta birtingu dóma Hæstaréttar. Við 1. umr. vil ég lýsa efasemdum um þessa breytingu. Við sjáum að í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins stendur varðandi þetta ákvæði að gert sé ráð fyrir nýmæli við birtingu dóma Hæstaréttar en að nauðsynlegt þyki að setja í lög nýjar reglur í ljósi þeirra venja sem skapast hafi í tæknivæðingu undanfarinna ára og heimilt verði að birta dóm á netinu sólarhring eftir uppkvaðningu en ekki samdægurs eins og verið hefur. Hér segir, með leyfi forseta:

„Er frestinum ætlað að tryggja að málsaðilar fái hæfilegt ráðrúm til að kynna sér efni dómsins áður en hann verður gerður opinber á netinu. Eðlilegt er að þessir hagsmunir málsaðila gangi framar hagsmunum almennings til þess að kynna sér efni dómsins.“

Þetta veltir aftur upp spurningum varðandi hagsmunamat, þarna vegast tvenns konar hagsmunir á. Við þessa umræðu vil ég lýsa smáefasemdum við þetta nýmæli. Það er spurning hvort niðurstaða dómsins eða sjálfur dómurinn muni ekki jafnvel spyrjast út áður og þá til einstakra fjölmiðla en ekki til allra. Sumir fjölmiðlar gætu þá átt betri aðgang að dómnum, ef hægt er að fá dóminn frá málsaðilum, á meðan aðrir fjölmiðlar sitja ekki við sama borð hvað það varðar.

Einnig er hætta á að út spyrjist einhvers konar afbökuð útgáfa af niðurstöðu dómsins ef fjölmiðlar fá rangar upplýsingar um innihald dómsins þennan sólarhring sem hann er ekki opinber. Það er náttúrlega grundvallaratriði að hingað til hafa dómar verið birtir á sama hátt og lög og það hefur alltaf verið mjög ríkur þáttur í umfjöllun fjölmiðla um niðurstöður dómstóla að aðgengi þeirra að dómum sé hvað best. Við sjáum að umfjöllun fjölmiðla um niðurstöður dóma er mjög mikilvæg og hún skapar líka ákveðið aðhald og eftirlit með þessu þriðja valdi ríkisvaldsins.

Við höfum líka séð að þeir málsaðilar sem vilja ekki tjá sig strax eftir dómsuppkvaðningu geta sleppt því. Málsaðilar hafa nýtt sér það. Þess eru ítrekuð dæmi að fjölmiðlar rjúka til viðkomandi málsaðila eða lögmanna þeirra og vilji fá viðbrögð. Þá taka málsaðilar sér tíma til að skoða dóminn og segja eðlilega: Við viljum kynna okkur fyrst niðurstöðu dómsins áður en við tjáum okkur um hann. Ég sé því ekki alveg þann vanda sem þetta nýmæli á að bregðast við og ég er ekki alveg viss um að það nái því markmiði sem stefnt er að. Ég sé ekki að þetta sé vandamál í dag og ég sé ekki heldur að þetta sé rökstutt í greinargerð með mjög sterkum rökum. Ég hef því efasemdir um þetta.

Ég hef einnig efasemdir varðandi 6. gr. sem lýtur að banni á myndatökum í dómhúsi. Það er allt í lagi að það komi fram við 1. umr., svo skoðum við þetta bara í allsherjarnefndinni hægt og rólega.

Í athugasemdum um 6. gr. stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir nýmæli um bann við myndatökum og öðrum upptökum í dómhúsum. Undanskildar eru þær upptökur sem fara fram á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eðlilegar eru við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómstjóri geti heimilað myndatökur og aðrar upptökur í einstök skipti með nánar greindu skilyrði, og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara og svo framvegis.

Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmáli þegar þeir sinna erindum sínum í dómhúsum. Einkum á þetta við um sakborninga í opinberum málum. Þá er alkunna að þetta er mjög fallið til þess að valda þeim, einkum hinum síðastnefndu, ama og óþægindum. Hafa sakborningar af þessum sökum mjög freistað þess að hylja andlit sín er þeir ganga í dómsal. Á síðustu árum hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðar á meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Hefur reynslan sýnt að í þeim tilfellum hefur hinn ákærði iðulega freistað þess að hylja andlit sitt einnig við þau tækifæri. Leiðir það aftur til þess að hinn ákærði þarf jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti á meðan á þinghaldinu stendur, í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni. Þykir þessi aðstaða vera til þess fallin að auka á ójafnvægi málsaðila.“

Við sjáum að markmiðið með þessu nýmæli í frumvarpinu er að draga úr óþægindum málsaðila. En það má velta því fyrir sér hvort það úrræði sem hér er boðið upp á nái því markmiði. Í staðinn fyrir að myndir séu teknar af aðilum í dómhúsinu má sjá fyrir sér að þær verði einfaldlega teknar þegar þeir ganga í dómhúsið. Þá er spurning hvort við náum því markmiði sem hér er stefnt að — þetta er í sjálfu sér róttæk aðferð sem nær kannski ekki að virka í ljósi þess hvernig fjölmiðlamenn kunna að bregðast við. Það er þá spurning hvort við eigum að fara þessa leið.

Blaðamenn hafa lýst efasemdum um þessi nýju úrræði, bæði varðandi frestun á birtingu dóma Hæstaréttar og bann við myndatökum. Þegar um er að ræða starfsemi fjölmiðla, og sérstaklega þegar með einhverjum hætti er verið að hefta starfsemi þeirra, þurfum við að fara mjög varlega. Það er hægt að taka undir það sem formaður Blaðamannafélagsins sagði, að skoða þyrfti betur hvort þetta nái tilætluðum markmiðum. Hvað myndatökur varðar held ég að það verði erfitt í ljósi þess hvernig fjölmiðlar munu laga sig að þessum nýja raunveruleika, myndir verða einfaldlega teknar af viðkomandi á leið í dómhúsið. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að koma í veg fyrir það þar sem menn eru þá á almannafæri.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en svona við 1. umr. lýsi ég a.m.k. efasemdum, sem við ræðum síðan betur í allsherjarnefnd, um 2. gr. og 6. gr. Við munum að sjálfsögðu skoða betur hið nýja hlutverk aðstoðarmanna héraðsdómara sem er mjög áhugavert. Það vekur upp ákveðnar spurningar en getur að einhverju leyti verið réttlætanlegt.