132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[17:16]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið er samið af Ragnheiði Bragadóttur prófessor og felur í sér endurskoðun á tilteknum ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, nánar tiltekið á ákvæðum um eftirtalin brot:

Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, 194.–199. gr., sbr. 205. gr. laganna. Kynferðisbrot gegn börnum, 200.–202. gr., sbr. 204. gr. laganna og vændi, 206. gr. laganna.

Ég ákvað vorið 2005 að beita mér fyrir endurskoðun fyrrgreindra ákvæða á grundvelli umræðu þeirrar sem orðið hafði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og kynbundið ofbeldi. Má m.a. nefna að hinn 21. mars 2005 barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf aðgerðahóps gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi með tillögum að úrbótum við gerð heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn slíku ofbeldi. Viðamestur er kaflinn þar sem kynnt eru ýmis sjónarmið og lagðar til breytingar er tengjast réttarkerfinu. Þar er sérstaklega vikið að kynferðisbrotakafla hegningarlaga.

Í ljósi þessa og vegna óska sem lagðar voru fram af hálfu frjálsra félagasamtaka um að fá að koma að sjónarmiðum um frumvarpið ákvað ég að hafa sérstakan hátt á aðdraganda þess að frumvarpið yrði tekið til umræðu hér á Alþingi.

Hinn 14. febrúar 2006 var frumvarpið lagt fyrir ríkisstjórn til kynningar. Jafnframt var það kynnt opinberlega og birt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins þar sem gefinn var kostur á að koma á framfæri athugasemdum við það áður en það yrði lagt fyrir Alþingi. Einnig var haldin málstofa í lagadeild Háskóla Íslands hinn 3. mars síðastliðinn þar sem höfundur frumvarpsins ræddi efni þess. Var sú málstofa vel sótt.

Tvær skriflegar umsagnir bárust um frumvarpið innan þess frests sem gefinn hafði verið í kynningarferlinu, önnur frá Samtökum um kvennaathvarf og hin frá Atla Gíslasyni hæstaréttarlögmanni. Voru þær sem og aðrar ábendingar um efni frumvarpsins athugaðar gaumgæfilega og tekið mið af þeim eins og unnt var.

Þriðja umsögnin barst síðan eftir að tekin hafði verið ákvörðun um efni frumvarpsins en það var umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og mun hún verða áframsend til allsherjarnefndar ásamt hinum umsögnunum.

Umsagnirnar eru til stuðnings frumvarpinu. Í þeim er að finna ábendingar sem eðlilegt er að skoðaðar séu, en umsagnaraðilar fagna þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í erindisbréfi mínu til Ragnheiðar Bragadóttur tel ég miklu skipta að við endurskoðun á fyrrnefndum ákvæðum í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga verði byggt á traustum refsiréttarlegum grunni og tekið mið af alþjóðlegri þróun á þessu sviði auk íslenskrar lagahefðar. Þetta tel ég hafa tekist vel í því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Frumvarpið byggist eins og fram kemur í almennum athugasemdum í fyrsta lagi á rannsóknum höfundar, bæði á löggjöfinni sjálfri og framkvæmd hennar. Til þeirrar rannsóknar telst könnun á dómum Hæstaréttar á þessu sviði undanfarna áratugi. Í öðru lagi var gerð könnun á löggjöf um kynferðisbrot í öðrum löndum. Í þriðja lagi var byggt á upplýsingum sem fram koma í ýmsum félagsfræðilegum og afbrotafræðilegum rannsóknum og gögnum og loks leitaðist höfundur við að kynna sér reynslu ýmissa aðila sem starfað hafa með þolendum brotanna.

Ljóst er að ákaflega vönduð vinna liggur að baki þessu frumvarpi af hálfu Ragnheiðar Bragadóttur prófessors. Gerir hún þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu ítarleg skil í greinargerð með frumvarpinu og vil ég vísa til þeirrar greinargerðar því þar er mikinn fróðleik að finna.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirtalin:

Lagt er til að hugtakið nauðgun verði rýmkað mjög frá því sem nú er, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að önnur kynferðisnauðgun, nú 195 gr. hegningarlaganna, og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandi getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans, nú í 196. gr. laganna, teljist nauðgun. Við það munu þessi brot varða mun þyngri refsingu en nú er, eða fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum í stað fangelsis allt að 6 árum.

Þá er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að lögfest verði ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun. Það á við ef þolandi er barn yngra en 18 ára, ef ofbeldi geranda er stórfellt eða ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.

Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögfest verði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.

Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði ákvæði um ítrekunaráhrif þannig að ítrekunartengsl verði á milli allra kynferðisbrotanna. Fyrra kynferðisbrot getur þá leitt til refsihækkunar ef dómþoli gerist sekur um kynferðisbrot að nýju.

Þá er í frumvarpinu lagt til að refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd og verði refsimörkin hin sömu og fyrir nauðgun, þ.e. fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Með því er lögð áhersla á hve alvarleg þessi brot eru þegar þau beinast gegn börnum og teljast þá nauðgun og kynmök við börn yngri en 14 ára alvarlegustu kynferðisbrotin í stað nauðgunar einnar áður.

Í 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls þegar sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en 14 ára er sjálfur á svipuðum aldri og þroskastigi og barnið.

Virðulegi forseti. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að upphaf fyrningarfrests kynferðisbrota miðist við 18 ára aldur brotaþola en ekki 14 ára eins og nú er. Þá verði refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gagnvart börnum hækkað þannig að brot gegn yngstu börnunum muni fyrnast á lengri tíma en samkvæmt núgildandi lögum.

Ég vek athygli á að samkvæmt gildistöku ákvæðis frumvarpsins mun ákvæði 1. gr. frumvarpsins, ef samþykkt verður, einnig gilda um brot sem framin eru fyrir gildistöku laganna enda sé fyrningarfrestur þeirra ekki hafinn. Þetta þýðir að fyrningarfrestur brots sem framið hefur verið fyrir gildistöku laganna gegn brotaþola undir 14 ára aldri byrjar ekki að líða fyrr en brotaþoli verður 18 ára. Ef brotaþoli er hins vegar við gildistöku laganna orðinn 14 ára og fyrningarfresturinn byrjaður að líða er miðað við að eldri reglur gildi um brot og er í þessu sambandi tekið mið af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 32/2004.

Loks er lagt til í 12. gr. frumvarpsins að ákvæði 1. mgr. 206. gr. um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Til að koma til móts við sjónarmið um að vændi geti við það orðið sýnilegra er lagt til að lögfest verði ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum.

Ekki er í frumvarpinu lagt til að vændiskaup verði gerð refsiverð og vísa ég í því sambandi til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpinu á bls. 36–37 í hinni prentuðu útgáfu. Þar kemur fram að rannsóknir hér á landi bendi til að vændi sé ekki síst að finna meðal barna á aldrinum 13–18 ára. Þá sýna rannsóknir að stór hluti vændismarkaðarins hér sé neðanjarðar enda alkunna að götuvændi tíðkist hér tæpast. Aðstæður hér á landi séu því aðrar en í Svíþjóð þegar refsiákvæði um vændiskaup var lögfest þar. Ég er sammála þessu mati höfundar frumvarpsins og tel í raun fráleitt að ætla að beita hér ákvæðum í refsilögum við brotum af þessu tagi sem eru sett í reglur í Svíþjóð til að bregðast við ástandi þar sem við þekkjum ekki hér á landi.

Þann 17. febrúar síðastliðinn var skilað skýrslu starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar. Var sú leið að gera kaup á vændi refsiverð skoðuð sérstaklega og má í skýrslunni finna ítarlega greinargerð um þau álitaefni sem þurfa að vera á borðinu þegar þetta mál er rætt. Nefndarmenn komust ekki að sameiginlegri niðurstöðu um hvort gera eigi vændiskaup refsiverð en eftir lestur skýrslunnar taldi ég rök þeirra sem mæla fyrir slíkri leið ekki sannfærandi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.