132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[17:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna framkomnu frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra um breyting á almennum hegningarlögum, þ.e. þeim kafla er varðar kynferðisbrot og vil leyfa mér að segja að það sé auðvitað löngu tímabært að sá kafli í hegningarlögunum sé endurskoðaður.

Hins vegar hef ég leyft mér að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir það á hvern hátt hann hefur staðið að vinnunni við að endurskoða kaflann. Ég hefði talið réttara að hæstv. ráðherra tæki tilboði þeirra aðila í kvennahreyfingunni sem hafa boðist til að leggja gjörva hönd á plóg í þessum efnum og hafa beinlínis boðist til að ljá ríkisstjórninni hjálparhönd og miðla af reynslu sinni í þessum efnum. Þar er um að ræða t.d. þá aðila sem hafa starfað hvað mest með fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Ég tel að það fólk sé búið að sanna yfirburðaþekkingu sína á þessum málaflokki og að mínu mati hefði það sannarlega verið gefandi fyrir höfund frumvarpsins að fá að hafa til liðsinnis og aðstoðar allt það fólk sem hafði boðið hæstv. ráðherra hjálparhönd í þessum efnum og hafði lagt til að heildstætt yrði tekið á þessum málum og unnið á dýptina á þeim út frá reynslunni sem þetta fólk er búið að afla sér.

Þetta er ekki sagt til að kasta nokkurri rýrð á Ragnheiði Bragadóttur, sem samdi frumvarpið, sannarlega ekki, því kunnátta hennar í lögum er auðvitað óumdeild. Sjálf sótti ég fyrirlestur Ragnheiðar í háskólanum þann 2. mars síðastliðinn þegar hún gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu máli og skýrði út fyrir viðstöddum með rökum á hvern hátt hún hafi komist að þeim niðurstöðum sem hún kynnir í frumvarpinu.

En svo ég bæti nú aðeins við óskir mínar, þá hefði ég auðvitað talið mjög ákjósanlegt að við hefðum haft meiri tíma til að ræða þetta frumvarp, en treysti mér engu að síður til að segja að allsherjarnefnd kemur auðvitað til með að taka góða umfjöllun um málið jafnvel þó svo að það verði eflaust sett í einhvern brennipunkt og athugað hvort hægt sé að afgreiða það frá Alþingi í vor. Við eigum eftir að sjá hvort það tekst. En auðvitað vita þeir sem í þessum sal sitja að það er ekki langur tími til stefnu í þeim efnum.

Varðandi efnisatriði frumvarpsins þá langar mig að fara nokkrum orðum um þrjá þætti þess. Það er í fyrsta lagi um nauðgunarákæruna, í öðru lagi um fyrningarfrestinn og í þriðja lagi um vændisákvæðið.

Ég fagna því auðvitað að breytingin á 194. gr. skuli vera að ganga í garð. Það er margt mjög gott í þeirri breytingartillögu eða þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. En þó hef ég ákveðnar efasemdir og efasemdir mínar varðandi breytingar á 194 gr. lúta að verknaðarlýsingunni, þ.e. þeirri staðreynd að enn skuli vera inni sá veigamikli þáttur þegar nauðgunin er skilgreind að samkvæmt 1. mgr. er skilyrði það að ofbeldi eða hótun um ofbeldi sé beitt við verknaðinn.

Nú er það svo að upp á síðkastið hefur verið umdeilt mál á hvern hátt verknaðaraðferðin skipti máli við nauðgun. Staðreynd málsins er auðvitað sú að nauðgun er grafalvarlegur glæpur sem hefur mjög miklar og varanlegar afleiðingar fyrir fórnarlambið. Þær eru andlegar og þær geta verið líkamlegar. En þær þurfa ekki að vera líkamlegar og þessi ofbeldisþáttur eða hótun um ofbeldi þarf ekki endilega að vera til staðar þó svo að um nauðgun sé að ræða. Auðvitað tekur höfundur frumvarpsins það með í reikninginn í 2. mgr. þar sem viðurkennt er að það teljist einnig nauðgun og varði sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér fórnarlambið á einhvern hátt vegna sjúkdóms eða andlegrar fötlunar til að hafa við viðkomandi samræði eða önnur kynferðismök. Það er líka getið um að til ofbeldis teljist svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. En í mínum huga hefði mátt vera hér til skoðunar, og ég legg til að það verði verulega vel skoðað í allsherjarnefndinni, hvort samþykki fyrir kynmökum geti verið eitthvert atriði sem við ættum að taka hér til umfjöllunar og hvort það sé á einhvern hátt möguleiki að koma því inn í þessa lagagrein, að allt samræði, öll kynferðismök sem höfð eru við einstakling sem ekki hefur gefið samþykki sitt sé í raun nauðgun.

Þetta lýtur að því sem kallað hefur verið kynfrelsi kvenna og það er í raun og veru nýtt hugtak í þessum fræðum, að tala um kynfrelsi kvenna. En það byggir einmitt á þessari hugmyndafræði að öll kynferðismök og allt samræði þegar ekki liggur fyrir samþykki sé í raun nauðgun. Atli Gíslason, varaþingmaður minn hér á Alþingi, hefur fjallað um þessi mál í nokkrum blaðagreinum upp á síðkastið og mig langar að vitna hér til greinar sem hann skrifaði í Morgunblaðið fyrir skemmstu, þ.e. hinn 19. febrúar 2006, eftir að Ragnheiður Bragadóttir hafði kynnt þetta frumvarp. Atli hefur talað um sömu grein og ég geri hér að umtalsefni og hann segir í grein sinni, með leyfi forseta:

„Hér er sem fyrr lögð megináhersla á verknaðaraðferðina en grafalvarlegar og varanlegar andlegar afleiðingar nauðgana skipta minna máli. Er efnisleg breyting hvað verknaðaraðferðina varðar næsta lítil frá gildandi nauðgunarákvæði. Er það reyndar staðfest í efnismikilli greinargerð með frumvarpinu þar sem meðal annars er tekið fram að eldri dómar í nauðgunarmálum hafi áfram fordæmisgildi varðandi refsinæmi háttseminnar. Það vekur athygli að í greinargerðinni er engu að síður staðhæft að með frumvarpinu sé dregið úr núgildandi áherslu á verknaðaraðferðir og megináhersla lögð á að með nauðgun fari fram kynmök án samþykkis. Hvað sem þeim ummælum líður er deginum ljósara af orðalagi frumvarpsgreinarinnar að nauðgun telst ekki framin nema beitt hafi verið ofbeldi eða hótunum. Verknaðarlýsingin er allt of þröng og áherslan röng. Hafi átt að leggja megináherslu á að kynmök án samþykkis feli í sér nauðgun ber nauðsyn til að umorða ákvæðið þannig að það taki ótvírætt til allra nauðgunartilvika. Segja hreinlega að hver sem hefur kynmök við mann án samþykkis gerist sekur um nauðgun. Það orðalag samræmist 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Orðalag frumvarpsgreinarinnar gerir það ekki. Það gerir kynfrelsi kvenna lægra undir höfði en til að mynda friðhelgi bréfa og húsa. Samkvæmt hegningarlögum varðar það refsingu að hnýsast í bréf eða ryðjast inn í hús. Refsað er ef samþykki liggur ekki fyrir. Framanrituð sjónarmið og fleiri hef ég rökstutt ítarlega í grein í Morgunblaðinu 12. desember 2005.“

Frú forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið Atla Gíslasonar, lögmanns, og tel að þau komi til umfjöllunar hjá allsherjarnefndinni þegar málið verður tekið fyrir þar.

Varðandi fyrningarfrestinn sem er annað atriði sem mig langar að gera að umtalsefni hér og í því máli hef ég snúist í ótal hringi. Ég hef verið stuðningsmaður þess frumvarps sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur lagt hér fram Alþingi um að fyrningarfrestur í kynferðisbrotum gegn börnum verði afnuminn. Ég hef verið stuðningsmaður þess og tel það vera réttlætissjónarmið að slíkt ákvæði næði fram að ganga, að þessi frestur yrði afnuminn. En svo hef ég skoðað hug minn og ég hef hlustað á Ragnheiði Bragadóttur og fleiri sérfræðinga sem fjallað hafa um þessa fyrningarfresti. Það er kannski komið þar í sögu minni í þessum efnum að ég er tilbúin til að sætta mig við ákveðin rök í þessu frumvarpi, sem hér koma fram, í frumvarpi Ragnheiðar Bragadóttur og í greinargerð hennar þar sem hún rökstyður hvers vegna hún fer ekki út í að afnema fyrningarfrestinn heldur að lengja hann með þeim hætti sem lagt er til.

Með þeirri lengingu sem hún leggur til í frumvarpinu erum við að tala um að fyrningarfrestur í svona brotum verði talsvert annar en hann er í dag, þ.e. að vægustu brotin yrðu þá fyrnd þegar fórnarlambið er 23 ára gamalt og alvarlegustu brotin væru fyrnd þegar fórnarlambið væri orðið 33 ára gamalt. Ég verð að segja að alltaf þegar ég horfi á þessi ártöl og þessar tölur þá fæ ég efasemdir. Ég hef sjálf reynslu af að hafa hitt konur sem mjög seint á ævinni eru að koma fram með áföll sín tengd svona brotum, og jafnvel eftir 33 ára aldur, þannig að ég held að hér sé þó um verulega úrbót að ræða því sambærilegur aldur miðað við lögin eins og þau eru í dag, er 29 ára. Þannig að þegar fórnarlömb alvarlegustu brotanna eru orðin 29 ára í dag, þá er málið fyrnt. Þetta yrði 33 ára, ef mér reiknast rétt til samkvæmt frumvarpi því sem hér liggur fyrir.

Eins og ég segi er ég opin fyrir því að ræða þessi mál og skoða hug minn í þessum efnum. Ég get svo sem ekki fullyrt neitt um það hér hvort verður ofan á í mínum huga, þ.e. hvort rétt sé að afnema fyrningarfrestinn alveg eða að fara þá leið sem hér er lögð til eða einhverja enn aðra leið sem gæti þá orðið samkomulagsatriði í hv. allsherjarnefnd.

Að lokum, frú forseti, varðandi vændisákvæðið þá er það mál sem ég hef borið fyrir brjósti og ég hef oftar en einu sinni, eins og hv. þingheimi er kunnugt, flutt hér mál sem lúta að þessari sænsku leið sem hæstv. ráðherra hefur ekki verið sáttur við, eða sammála. Í ræðu hans hér áðan eða þannig má skilja mál hans, frú forseti, þá segir hann svo frá þessari sænsku aðferð, þ.e. að gera kaup á vændi refsivert, að Svíar hafi einungis innleitt þetta ákvæði til að taka á götuvændi og því mansali sem var orðið verulegt vandamál í Svíþjóð.

Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Svíar settu þetta ákvæði í lög í gegnum mjög yfirgripsmikla vinnu, það var jafnréttisvinna eða kvenfrelsisvinna sem sett var af stað og er í raun og veru hluti af risastórum lagabálki sem ber heitið „Kvinnofrid“ og kemur inn á gríðarlega marga þætti, margar lagabreytingar sem varða ofbeldismál og kynbundið ofbeldi. Mergurinn málsins er nefnilega sá að Svíar hafa skilgreint vændi sem ofbeldi, kynbundið ofbeldi. Það var til þess að taka á því ofbeldi sem vændi er og viðgengst í vændi sem Svíar settu þetta ákvæði. Þannig að hæstv. ráðherra hefur ekki rétt fyrir sér og hann er faktískt að veikja undirstöðu Svíanna undir þetta ákvæði þegar hann heldur því fram hér að það hafi einungis verið sett til að taka á götuvændi og mansali.

Hins vegar hefur aðgerðin reynst afar öflug til að taka á götuvændi og mansali. Því bæði eru sýnileg merki um það í Svíþjóð og þau mjög skýr, að götuvændi hefur minnkað umtalsvert, nánast má segja að í Stokkhólmi heyri það sögunni til og það sem er til staðar er a.m.k. það viðráðanlegt og á það afmörkuðu svæði að það er ekki einu sinni Gamla gatan sem menn þekktu sem þá götu sem menn og konur buðu blíðu sína, heldur er í hæsta lagi hægt að segja að um ein gatnamót sé að ræða þar sem lögreglan þarf að skipta sér af því að götuvændi sé til staðar.

Varðandi þá hugmynd sem hér er lögð fram og hæstv. ráðherra styður, þ.e. að það skuli afnumið það refsinæmi sem gilt hefur í lögum hingað til að þeir sem leiðast út í að selja vændi teljist ekki lengur fremja refsinæman verknað. Það er sannarlega af hinu góða og ég lýsi stuðningi við að það ákvæði skuli sett fram með þeim hætti. Hins vegar vil ég meina að full efni standi til að við Íslendingar leiðum í lög þessa sænsku aðferð. Ég tel að þótt ekki væri nema til að gefa þá yfirlýsingu sem sænska ríkisstjórnin þorði að gera á sínum tíma að vændi sé óásættanlegt og það sé ofbeldi, í því felist ofbeldi, kynbundið ofbeldi í langflestum tilfellum. Það er í mínum huga mjög nauðsynlegt.

Í lok máls míns vil ég gera að umtalsefni skýrslu starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og hæstv. ráðherra nefndi. Sjálf átti ég sæti í þessum starfshópi og ásamt hv. þm. Jónínu Bjartmarz og Ágústi Ólafi Ágústssyni skilaði ég lokaorðum eða niðurstöðum af þeirri vinnu. Ég vil taka fram að ég var ekki alls kostar sátt við niðurlag vinnunnar þar sem frumvarp Ragnheiðar Bragadóttur var kynnt, gott ef ekki var bara nánast sama dag eða daginn eftir að við höfðum skilað af okkur þessari vinnu vændisnefndarinnar. Ég hafði auðvitað séð fyrir mér að það gæti orðið meiri umræða um þessa vændisskýrslu en raun bar vitni. Hún var í sjálfu sér kæfð með því að hæstv. ráðherra lagði fram þetta frumvarp þar sem niðurstaða hans í málinu var kunngjörð án þess að hann færi í að kynna sér vinnu nefndarinnar eða niðurstöður þeirra aðila sem störfuðu í nefndinni.

En við þessir þrír þingmenn sem ég nefndi áðan áttum sameiginleg lokaorð í skýrslunni. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að breyta almennum hegningarlögum í þá veru að refsiábyrgðin vegna vændis sé færð af þeim sem neyðast til að selja aðgang að líkama sínum og yfir á þá sem búa til eftirspurnina, þ.e. yfir á kaupendurna. Við teljum einnig að það sé brýnt, þar sem margt bendir til að vændi sé vaxandi vandamál á Íslandi, og nefni ég bara vændisskýrslu dómsmálaráðherra frá 2002 máli mínu til staðfestingar, og því mjög tímabært að grípa til aðgerða. Við teljum að það þurfi að gefa gaum að tengslum vændis og mansals. Við teljum óraunhæft að ætla annað en að þeir sem stunda mansal horfi ekki síður til Íslands en annarra Norðurlanda sem markaðssvæðis og ég tel að við höfum vísbendingar í þá veru. Þótt enn hafi enginn verið sóttur til saka eða sannanlega verið upplýst um einhver slík brot hér á landi þá þykir mörgum þeirra sem vel þekkja til og hafa tjáð sig um málin á þessu sviði, að óforsvaranlegt sé að afneita því að viðskiptanet þeirra glæpasamtaka sem stunda mansal vítt og breitt um álfuna teygi sig hingað til Íslands. Mér finnst fólk loka augunum fyrir því að hér á Íslandi séu áberandi vísbendingar um að mansal sé til staðar. Við þekkjum öll fréttir Dagblaðsins sem hafa verið í sviðsljósinu síðustu daga. Ég spyr, hvað er það annað en vísbendingar um að mansal teygi anga sína hingað?

Hvers vegna er þá ekki réttlætanlegt að fara að með sama hætti og Svíarnir, að gera kaup á vændi refsivert og gera kaupendurna ábyrga? Nú er það svo að þeir einstaklingar sem leiðast út í vændi eru í langflestum tilfellum, eftir því sem þær rannsóknir sem ég hef kynnt mér sýna, á einhvern hátt fórnarlömb aðstæðna. Fórnarlömb mögulegrar misnotkunar á yngri árum eða fórnarlömb fátæktar eða annarrar félagslegrar aðstöðu sem er ekki sem skyldi og fleira mætti telja í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Þegar öllu er á botninn hvolft tel ég hér fullt efni til langra umræðna um þetta mál. Ég geri ráð fyrir og vona að hv. alþingismenn taki málið til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég veit að það koma til með að verða frjó og mikil skoðanaskipti og ég vona sannarlega að hv. formaður nefndarinnar sýni nú þann dug sem hann hefur sýnt í vinnu við önnur erfið mál hér í vetur, að opna á alla möguleika til breytinga. Því ég tel að við getum gert betur en þetta frumvarp segir til um.

Ég tel að svo mæltu, frú forseti, að málið sé í góðum höndum í allsherjarnefndinni, en eins og ég segi, treysti því að á því verði gerðar góðar breytingar í meðförum nefndarinnar.