132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:02]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var spurður að því hvort ástæða væri til að rannsaka þessi mál frekar hér. Ég tel að þessi mál verði rannsökuð frekar og dómsmálaráðuneytið hefur á fáum árum sett tvo starfshópa í að fjalla um vændismálin. Áhugi lögfræðinga og félagsfræðinga á þessu sviði er vaxandi. Ég er sannfærður um að rannsóknir verði stundaðar í þessu efni. Ef það kemur til minna kasta að stuðla að því þá er ég síður en svo andvígur því að rannsakað verði frekar hvernig þessum málum er háttað hér á landi.

Ég veit hins vegar að þeim er allt öðruvísi háttað, og þarf engar rannsóknir til að sýna fram á það, en í Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Við höfum ekki við nein sambærileg vandamála að glíma í þessu efni og þær þjóðir, sérstaklega þegar litið er til mansals. Við höfum miklu betri tæki og miklu betri aðferðir heldur en þær til að hindra mansal við landamæravörslu okkar. Í því efni eigum við að leggja áherslu á það sem ég er að boða í frumvarpi um nýskipan lögreglumála, áhættugreiningu, greiningardeildir, og slíka starfsemi á vegum lögreglunnar. Það er úrræði sem við eigum að nýta til að koma í veg fyrir mansal í landinu og herða landamæravörslu. Það er úrræði sem við eigum að sjálfsögðu að nýta og miklu virkari úrræði en þær leiðir sem menn fara í Svíþjóð og hugsanlega í Finnlandi og öðrum löndum.