132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:08]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með þetta frumvarp, bæði hvað varðar efnislegar breytingar sem í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði á almennum hegningarlögum sem og frumvarpinu að öðru leyti, þ.e. hve vel það hefur verið undirbúið, hversu ítarlegar athugasemdir fylgja því og hvað greinargerðin hefur í alla staði verið vönduð.

Mig langar í upphafi máls míns að rifja upp að á síðasta ári var til umfjöllunar í allsherjarnefnd frumvarp til breytinga á fyrningarreglunni sem hefur komið mjög til umfjöllunar í umræðunni í dag. Við afgreiðslu á því máli, sem komst reyndar ekki á dagskrá þingsins í kjölfarið, var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar á sama veg og lagt er til í þessu frumvarpi, þ.e. að fyrningaraldurinn er hækkaður upp í 18 ár í frumvarpinu, sem er hið sama og meiri hluti allsherjarnefndar lagði til fyrir um ári síðan.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar á þeim tíma beindi nefndin því til dómsmálaráðuneytisins að taka kynferðisbrotakafla hegningarlaganna til endurskoðunar. Það var síðan einungis nokkrum dögum, í mesta lagi vikum síðar, að dómsmálaráðherra hafði falið höfundi þessa frumvarps að semja frumdrög að frumvarpi um breytingar á tilteknum ákvæðum kynferðisbrotakaflans.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hefur víða verið leitað fanga við samningu þess. Ekki verður annað sagt en að frumvarpið geymi, með athugasemdunum, gríðarlegum fróðleik og yfirgripsmikla samantekt á þeim atriðum sem máli skipta þegar þau atriði sem hér eru til umfjöllunar eru skoðuð. Í þessu efni verður ekki annað sagt en að allsherjarnefnd sem fær þetta frumvarp til umsagnar og meðferðar fái sérstaklega gott veganesti vegna þess hvernig búið hefur verið um allan undirbúning að málinu. Mér þykir líka ástæða að geta þess, til marks um fagleg vinnubrögð í ráðuneytinu, að drög að frumvarpinu skyldu kynnt á heimasíðu ráðuneytisins áður en málið var endanlega lagt fyrir þingið.

Að öðru leyti vil ég segja um greinargerðina með frumvarpinu að þar eru þau viðkvæmu atriði sem hér eru til umfjöllunar, kynferðisbrot gegn börnum, vændi, nauðgun og önnur brot sem hér er verið að fjalla um, dregin fram í dagsljósið og allar hliðar málanna skoðaðar gaumgæfilega. Farið er yfir meira eða minna öll sjónarmið sem maður þekkir úr umræðunni á Alþingi. Dregin er saman lagaþróunin á öðrum Norðurlöndum. Kannaðir eru kostir og gallar við að fara hinar ólíku leiðir.

Í þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag kannast maður við þessi sömu sjónarmið. Þeir sem hallast að annarri leið heldur en lögð er til í frumvarpinu tína beinlínis upp rökin sem er að finna í frumvarpinu, um aðra kosti í stöðunni.

Þetta er allt saman vegið og metið í frumvarpinu á mjög málefnalegan hátt og komist að niðurstöðu með afar sannfærandi rökum, að mínu áliti. Ég vil lýsa mig sammála öllum meginatriðunum í þessu frumvarpi þegar komist er að niðurstöðu um hvaða leið eigi að fara þegar tekist er á við vændi sem vandamál í þjóðfélaginu og hvaða úrræði við eigum að nýta okkur í refsilöggjöfinni vegna kynferðisbrota gegn börnum. Á fleiri stöðum en einum er komið inn á þau brot vegna þess að refsihámarkið fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum er hækkað. Það leiðir til þess að kynferðisleg áreitni gegn börnum er brot sem fyrnist á lengri tíma en gildir samkvæmt hegningarlögum sem nú eru í gildi. Fyrningarfresturinn mun því ekki bara aukast um þessi fjögur ár, sem leiðir af reglunni um 18 ára viðmiðið. Af því að refsihámarkið er hækkað eykst fyrningarfresturinn í þeim brotum sérstaklega.

Frumvarpið eins og menn þekkja sem hafa kynnt sér það er upp á 50 síður. Efnisgreinar frumvarpsins eru þrjár blaðsíður en á 47 síðum er farið ofan í grundvöll þessara mála. Það segi meira en mörg orð um hversu vel hefur verið vandað til verksins.

Ég ætla ekki að flytja mjög langt mál en vil þó aðeins koma inn á nokkur atriði sem hafa verið áberandi í umræðunni í dag, m.a. um þá niðurstöðu sem hér er að finna um hvernig við eigum að taka á vændi í refsilöggjöfinni. Menn gagnrýna að ekki skuli farin sænska leiðin og vísa til að komið sé fram frumvarp í Finnlandi um að fara sænsku leiðina. Það eru í sjálfu sér engin ný tíðindi vegna þess að frumvarpið sjálft greinir frá því en eins og þar segir er óvíst um hver afdrif þess frumvarps verða í þjóðþinginu. Ekki hafa Danir farið þá leið eða Norðmenn. En við þá umfjöllun sem bíður okkar í nefndinni og hér á þinginu um vændismálin höfum við, auk þeirrar umfjöllunar sem er að finna í þessu frumvarpi, skýrslu vændisnefndarinnar. Því er úr nógu að moða þegar kemur að því að tína til sjónarmiðin um hvaða leið skuli farin í þessu efni.

Hér hefur verið talað um að lítið sé fyrir það gefandi að í frumvarpinu er leitast við að koma í veg fyrir að vændi sé sýnilegt í þjóðfélaginu. En það er líka ákveðið þjóðfélagsmein. Staðan er sú að jafnvel í dagblöðunum sem koma út á hverjum degi er hægt að bjóða líkama sinn til sölu án þess að lögreglan geti aðhafst á nokkurn hátt. Það er ekki sjálfgefið að viðkomandi sé að gera slíkt sér til framfærslu. Það kann að vera að aðstæður viðkomandi einstaklings séu þannig að hans háttsemi varði ekki við lögin eins og þau eru í dag.

Af þessari ástæðu er það mikilvægt að í frumvarpinu er lögreglunni fengið sérstakt tæki til að bregðast við þegar vændi er boðið opinberlega í auglýsingum. Ég tel að það sé sérstaklega mikilvægt skref til að vændi verði ekki sýnilegt. Ég tel að það hafi þýðingu í baráttunni gegn vændi.

Talað er um að hér sé verið að leggja það til að vændi verði lögleitt. Það stenst ekki að líta málið þeim augum. Um þetta er fjallað í löngu máli í frumvarpinu sjálfu og rökin fyrir þeirri leið sem hér er valin eru tínd til. Þar stendur það sjónarmið upp úr að sá sem býður líkama sinn til sölu þarf fyrst og fremst á félagslegum úrræðum að halda en ekki refsingu. Það eru þyngstu rökin fyrir því að sala vændis er ekki lengur refsiverð samkvæmt frumvarpinu.

Jafnframt er tekið mjög ítarlega á því í röksemdafærslu fyrir frumvarpinu hvers vegna það sé ekki líklegt til árangurs að velja þá leið að gera kaupin refsiverð. Þegar vændi er skoðað sem þjóðfélagslegt vandamál hljóta menn að reyna að komast að rótum vandans. Með sænsku leiðinni, svona einangraðri sem tiltekinni lausn, láta menn sig engu varða hvar rót vandans liggur. Það eru hin félagslegu úrræði sem langmestum árangri hafa skilað. Um það vitnar lögreglan og aðrir þeir sem um þessi mál hafa fjallað. Í tengslum við frumvarp um vændi sem áður hefur verið til meðferðar í allsherjarnefnd höfum við fengið fjölmarga aðila til að ræða við okkur á faglegum forsendum um þennan málaflokk. Eins og ég vék að hefur meira bæst í þann gagnabanka sem við getum leitað í til að viða að okkur fróðleik um þessi mál.

En það kemur fram hjá öllum þessum aðilum að það eru hin félagslegu úrræði sem mestu máli skipta. Mér þykir því einkennilegt hve mikil áhersla er lögð á hin siðferðislegu skilaboð sem felast í að gera kaupin refsiverð. Það má halda því fram að í því felist einhver siðferðisleg skilaboð. En felast ekki líka í því ákveðin siðferðisleg skilaboð að aflétta refsingunni af þeim sem býður fram líkama sinn til sölu? Mitt svar við því er: Að sjálfsögðu. Með því er undirstrikuð sú neyð sem viðkomandi er í og hversu óréttlátt það er að beita viðkomandi refsingu fyrir það sem hann gerir vegna bágra aðstæðna sinna.

Aðeins varðandi fyrningarfrest og kynferðisbrot gegn börnum. Ég tel að í þessu frumvarpi hafi verið færð fyrir því mjög sannfærandi rök. Þau eru á sömu nótum og meiri hluti allsherjarnefndar komst að í sinni umfjöllun í nefndaráliti frá því í fyrra og ég vék aðeins að í mínu máli. Það eru ákveðin prinsipp í refsilöggjöfinni sem hér er verið að reyna að varðveita. Að því leytinu til má segja að þau drög sem frumvarpshöfundur hefur skilað af sér fylgi þeim fyrirmælum að við endurskoðun lagaákvæðanna verði byggt á traustum refsiréttarlegum grunni og horft til íslenskrar lagahefðar.

Ég vil ekki að menn geri lítið úr mikilvægi þess að við sýnum ákveðna samkvæmni í því þegar við erum að hreyfa við refsilöggjöfinni. Það skiptir máli að við séum ekki með endalausar sérreglur hvað varðar fyrningu, refsihæfi einstakra brota o.s.frv. Það er mikil áhersla lögð á það í þessu frumvarpi sem að öllu leyti er í þessu samhengi faglegt og sannfærandi. Ég ítreka að ég er ekki síst ánægður með að þegar komist er að niðurstöðu um einstök álitaefni í þessu frumvarpi er það eftir að bæði sjónarmiðin hafa verið reifuð.

Þetta er nú allt sem ég vildi segja um þetta mál á þessu stigi. Ég ítreka ánægju mína með það góða veganesti sem allsherjarnefnd fær þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar með þessu ítarlega rökstudda frumvarpi.