132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:23]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti hér ánægju minni með efnisatriði þessa frumvarps þegar komist er að niðurstöðu um hvernig við eigum að taka á því vandamáli sem vændi hefur verið í okkar þjóðfélagi. Í frumvarpinu er sænsku leiðinni hafnað. Það hefur verið sannfæring mín að það sé rétt að gera og mér finnst að í frumvarpinu hafi verið færð sannfærandi rök fyrir því hvers vegna sú leið er valin sem þar er gert.

Hvort það samræmist mínum siðferðislegu mælikvörðum að hægt sé að kaupa líkama manna, þá virðist hv. þm. Ágúst Ólafur vera haldinn þeirri blindni að einungis sé hægt að taka á þessu vandamáli með breytingu á refsilöggjöfinni. Þetta snýst ekki um það. Það eru fjölmargar aðrar aðgerðir sem stjórnvöld geta beitt til að taka á þeim vanda sem vændi getur verið. Með þeim aðgerðum eru þau að lýsa siðferðislegri vanþóknun sinni á stöðu þeirra sem notfæra sér bágar aðstæður fólks og á því félagslega vandamáli sem þeir sem bjóða líkama sinn til sölu eru í.

Það er kjarni málsins. Ég held að við þurfum að fara að beina umræðunni frá því hvaða siðferðislegu skilaboð Alþingi ætlar að fara að setja hér út með lagabreytingum og einblína frekar á vanda þeirra sem eru komnir í þá aðstöðu sem tengist vændinu. Það er miklu mikilvægara að mínu áliti.

Varðandi það hvort það komi til álita að gera breytingar á þessu frumvarpi þá er það að sjálfsögðu þannig. En ég er að lýsa ánægju minni með niðurstöðuna, um ákveðnar stórar spurningar sem velt er upp með því að hreyfa við þessum málaflokki. Að sjálfsögðu er engin ástæða til að útiloka breytingar sem við kunnum að reka okkur á í nefndarstarfinu að nauðsynlegt sé að gera. Hins vegar sé ég ekki fyrir mér neinar meiri háttar stefnubreytingar. Og varðandi fyrninguna er það meginprinsippið að alvarlegustu brotin séu ófyrnanleg og ég tel ekkert ósamræmi í að þeirri reglu sé (Forseti hringir.) viðhaldið þó að við séum með fyrningarreglu varðandi önnur brot.