132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:26]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir í svari sínu að þetta snúist ekki bara um refsilöggjöfina. Ég tók einmitt fram í ræðu minni að þetta snýst ekki bara um lagabreytingar. Ég lagði til að við þyrftum einnig að huga að félagslegum úrræðum. Það þarf ekkert að gerast hvort á annars kostnað.

En það er alveg ljóst að refsilöggjöfin getur haft áhrif. Hún hefur varnaðaráhrif. Hún gefur ákveðin skilaboð og hún getur dregið úr eftirspurninni. Ef við drögum úr eftirspurninni drögum við úr framboðinu.

Hv. þingmaður segir að við eigum ekki að einbeita okkur að siðferði heldur að vandanum. Vandinn liggur í að þetta þing treystir sér ekki til að senda þau siðferðislegu skilaboð að það sé rangt að kaupa líkama manneskju með þessum hætti. Þar liggur vandinn. Vandinn liggur líka í því að þetta þing treystir sér ekki til að segja að við eigum að einbeita okkur að svokölluðum rótum vandans sem er auðvitað kaupandinn. Það er engin sala án kaupanda.

Varðandi fyrninguna — hv. þingmaður talar um samkvæmni í refsilöggjöfinni og segir síðan að hann telji að alvarlegustu afbrotin eigi að vera ófyrnanleg. Nú er staðan sú að við höfum t.d. afbrot eins og ítrekuð rán og mannrán í þessum flokki. Telur hv. þingmaður að þau afbrot, ítrekuð rán, séu alvarlegri en kynferðisleg afbrot gegn börnum? Ég vona ekki og geri ekki ráð fyrir því. En af hverju eiga þá ekki kynferðisafbrot gegn börnum að vera í þessum flokki? Af hverju látum við gerandann njóta þess aðstöðumunar sem hann hefur í ljósi þess að hann brýtur á barni sem þekkir ekki leiðir til að leita sér aðstoðar með réttum hætti? Það er sérstaða þessara brota.

En lítum á þetta meinta prinsipp í refsilöggjöfinni. Prinsippið í refsilöggjöfinni er ekki meira en það að nú þegar eru til ófyrnanleg brot. Nú þegar er tekið tillit til barna í löggjöfinni. Það er nú ekki lengra síðan en á 9. áratug síðustu aldar að þá voru til mörg ófyrnanleg brot sem mörg voru með lága hámarksrefsingu. Þannig að hér er ekkert verið að brjóta neitt prinsipp. Hér er einungis verið að mælast til að þetta þing (Forseti hringir.) taki refsipólitíska ákvörðun og láti fara fram hagsmunamat, (Forseti hringir.) fyrningarrökin versus hagsmunir barnanna.