132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:28]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir nú býsna langt seilst að segja að vandinn sem tengist vændi snúist um að Alþingi treysti sér ekki til að senda út siðferðisleg skilaboð um hvernig fólk eigi að hegða sér. Ég veit ekki hvers konar ofurtrú þingmaðurinn hefur á þeim skilaboðum sem þingið sendir frá sér og ætlast til að það hafi síðan áhrif á mannlega hegðun. Þetta er ekki þannig að allt verði leyst með því annaðhvort að leyfa eða refsa fyrir einhver tiltekin brot. Ég ítreka að þegar kemur að vændi eiga að vera í forgrunni praktískar lausnir, forvarnir og félagsleg aðstoð við þá sem á henni þurfa að halda.

Auðvitað er þetta ekkert prinsippatriði varðandi fyrningu kynferðisbrota gegn börnum. Þetta snýst ekkert um að við viljum halda í prinsippið. Það er fjöldinn allur af öðrum rökum sem tíndur er til og það er einmitt vegna þess að við áteljum sérstaklega kynferðisbrot gegn börnum sem sérregla er smíðuð um í hegningarlögin, sérregla um fyrninguna sem þessi brot lúta. Það er sérregla sem nota bene er sambærileg sérreglunni sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa kosið að innleiða hjá sér. Engin þeirra hefur valið að fara leiðina sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. að fella fyrninguna alfarið niður. Engin önnur þjóð hefur valið að fara þá leið. Ég tel að í frumvarpinu sé að finna afar sannfærandi rök og ákveðna samfellu sem mér finnst líka skipta máli þó hún sé ekki stóra prinsippið í þessum málaflokki. Það eru ákveðin refsipólitísk sjónarmið og hagkvæmnisrök sem koma hér til skoðunar. En auðvitað væri miklu þægilegra að standa hér upp sem málsvari þeirra sem hafa orðið fyrir þessum brotum og segja að það sé engin áhætta af því að aflétta fyrningunni. En málið er kannski ekki, þegar betur er að gáð, alveg svo einfalt.