132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:33]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég einfaldlega tel mig hafa hafnað þessum sjónarmiðum áður. Þetta eru sömu sjónarmiðin og hafa verið í umræðunni, þ.e. að gera þurfi breytingar á refsilöggjöfinni til að koma því sjónarmiði að hjá almenningi að eitthvað sé að því siðferðislega að sækjast eftir kaupum á líkama annarrar manneskju. Ég tel að það þurfi einfaldlega ekki breytingu á refsilöggjöfinni til að fólk átti sig á þessu. Ég tel að allur meginþorri almennings sé þessarar skoðunar. Það er bara þannig. Við þurfum ekki að breyta refsilöggjöfinni til að senda út skilaboð um hvernig okkur þykir almennt rétt að fólk hagi sér varðandi einstök mál, það bara er ekki þannig.

Hv. þingmaður getur treyst á stuðning minn við að auka félagsleg úrræði, sé sýnt fram á að þau komi að gagni. Ég tel að það eigi fyrst og fremst að nýta þau. Hv. þingmaður er í hópi þeirra sem hefur fyrst og fremst talað fyrir sænsku leiðinni. Ég hef frá upphafi þeirrar umræðu átt afar erfitt með að skilja hvers vegna menn líta á þá leið sem einhverja töfralausn. Menn tala um sænsku leiðina eins og hún sé hin heilaga ritning og hin eina sanna lausn í glímunni við vændi í heiminum. Það eru bara ekki til nein mótrök fyrir sænsku leiðinni. Þeim er bara öllum hafnað þvert á línuna. Þetta er ekki málefnaleg nálgun á því sem við erum að fjalla um. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því að við erum ekki eina þjóðþingið sem hefur velt því fyrir sér að taka upp sænsku leiðina. Það hafa aðrir gert, eins og ég hef bent á, og komist að sömu niðurstöðu og við.

En til þess að viðkomandi þingmenn, sem aðhyllast þá leið, eigi einhverja vonarglætu þá er þó í þessu frumvarpi sagt að enn sem komið sé ekki komin nægilega góð reynsla af sænsku leiðinni og henni er því að því leyti (Forseti hringir.) til ekki fullkomlega hafnað til allrar framtíðar.