132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Tollalög og tekjuskattur.

733. mál
[19:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu eru því einkum lagðar til breytingar á þeim ákvæðum tollalaga sem fjalla um tollumdæmi og stjórn þeirra. Við undirbúning frumvarps þessa var farið vandlega yfir tillögur fyrirliggjandi frumvarps um breytta skipan lögreglustjórnar með tilliti til mögulegra breytinga á skipan tollumdæma. Jafnframt var horft til tölulegra upplýsinga um komur skipa og flugvéla og fjölda tollafgreiddra sendinga í hverju tollumdæmi eins og þau eru afmörkuð í dag til þess að mæla umfang tollamála í hverju umdæmi fyrir sig. Þær sýna glögglega að umfangið er mjög misjafnt milli umdæma og í sumum þeirra er það nánast ekki neitt. Til dæmis afgreiddu þeir tollstjórar sem gert er ráð fyrir að verði tollstjórar í stærri umdæmum næstum 90% af öllum aðflutningsskýrslum sem bárust til landsins á árinu 2004. Að teknu tilliti til þessara tveggja meginþátta er tillagan sú að tollumdæmi á landinu verði 8 talsins í stað 26 umdæma samkvæmt gildandi lögum.

Í meginatriðum er lagt til að tollumdæmin fylgi afmörkun lykilembætta hjá lögreglunni, þ.e. þeirra embætta þar sem sérstakar rannsóknardeildir lögreglu verða starfræktar. En þau verða samtals sjö. Þó er gert ráð fyrir að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum gegni áfram hlutverki tollstjóra vegna legu eyjanna þrátt fyrir að ekki sé starfrækt rannsóknardeild við embættið. Jafnframt er lagt til að lögreglustjórinn á Seyðisfirði verði áfram tollstjóri, ekki síst vegna þeirra miklu umsvifa sem þar eru á sviði tollamála, bæði við stóriðjuframkvæmdir eystra og vegna reglubundinna ferjuflutninga til og frá landinu. Þá er gert ráð fyrir að umdæmi tollstjórans á Reykjavík nái yfir umdæmi lögreglustjóranna á Akranesi, Borgarnesi og Stykkishólmi í vestur, og þannig yfir tvö lykilembætti lögreglunnar. Í því sambandi er einkum horft til þess að enginn tollvörður er starfandi á þessu svæði eins og málum er háttað en tollstjórinn í Reykjavík hefur á að skipa öflugu lið tollvarða sem unnt er að samnýta án teljandi hindrana.

Eins og áður var bent á kalla miklar breytingar í starfsumhverfi tollstjóra á undanförnum árum óhjákvæmilega á breyttar áherslur við tolleftirlit. Nú er svo komið að þorri aðflutningsskýrslna er látinn tollstjóra í té með rafrænum hætti. Afleiðingin af þessu fyrirkomulagi er að dregið hefur úr beinu eftirliti við tollafgreiðslu vöru og byggist tolleftirlit nú að mestu á skipulagðri tollendurskoðun eftir að innflutt vara hefur verið afhent.

Allt tolleftirlit, þar með talin tollendurskoðun, mun á komandi árum í auknum mæli byggjast á skipulegri áhættugreiningu í því augnamiði að finna og takast á við skilgreinda áhættuþætti við inn- og útflutning. Ég tel að með fækkun og stækkun tollumdæma verði skipulag og stjórn tolleftirlitsins á landsvísu og hjá einstökum tollstjórum markvissara. Þá lít ég sérstaklega til mikilvægs eftirlits með innflutningi fíkniefna til landsins. Það er mitt mat að fækkun tollumdæma leiði til þess að auðveldara verði að byggja upp þá sérhæfingu hjá embættunum sem er grundvöllur viss eftirlits með innflutningi fíkniefna og öðrum ólöglegum innflutningi. Fækkun umdæma mun einnig auðvelda samvinnu á milli tollstjóra en nauðsynlegt er að auka sveigjanleika í nýtingu mannafla og tækja á landsvísu og tryggja með því að auknu álagi á einum stað verði mætt með liðsauka frá öðrum.

Önnur viðamikil breyting í starfsumhverfi tollstjóra er aukin áhersla alþjóðasamfélagsins á varnir gegn hryðjuverkum og útflutningseftirlit í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hryðjuverk. Tollyfirvöldum hefur verið falið veigamikið hlutverk við framkvæmd farmverndar, sem er einn þáttur í siglingavernd er miðar að því að tryggja vernd skipa og hafna. Færri og stærri embætti verða betur í stakk búin til þess að laga sig að nýjum og fjölbreyttum verkefnum.

Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, í því skyni að tryggja óbreytta skipan varðandi innheimtumenn ríkissjóðs þó svo að til fækkunar komi á tollumdæmum og þar með á tollstjórum, en samkvæmt gildandi lögum eru tollstjórar jafnframt innheimtumenn ríkissjóðs.

Minni háttar breytingar á nokkrum ákvæðum tollalaga er einnig að finna í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.