132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra viðurkennir að auðvitað þurfi stefnumörkunin að fá rými og svigrúm og það þurfi að fara í þá vinnu. Ég fagna því líka að hún skuli benda á niðurstöður nefndarinnar frá 1990, að þær geti verið grunnur þó svo hún hafi kannski einhverjar efasemdir um að þær séu nægilega nútímalegar.

Varðandi síðan það sem hún segir um að hennar hugleiðingar ganga út á að það hefði getað orðið niðurnjörvandi og heftandi fyrir væntanlegan forstöðumann þessa safns að fá eitthvað slíkt um stefnumörkunina setta inn í lagatextann, þá vil ég meina að óþarfi sé að óttast slíkt. Við höfum t.d. í vetur verið að vinna í menntamálanefndinni að máli sem varðar stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og þar gagnrýndi ég einmitt í fyrstu umræðu að mér sýndist skorta ákveðið innra skipulag stofnunarinnar sem ég teldi eðlilegt að væri mælt fyrir um í lagatexta.

Í vinnu nefndarinnar síðan í því máli sem var mjög djúp og fín enduðum við með það í sjálfu sér að fyrirskrifa ákveðna stöpla í hið innra starf. Ég sæi fyrir mér að eitthvað svipað gæti gerst í vinnu nefndarinnar með þetta mál, þ.e. sú vinna sem nú liggur fyrir og hefur verið skrifuð út í skýrslum til menntamálaráðuneytisins verði skoðuð gaumgæfilega og kannað hvort ekki væri ráðlegt að setja einhverja þætti, einhverja stöpla úr þeirri stefnumótunarvinnu í þetta frumvarp til að ljóst sé á hvern hátt löggjafinn sér fyrir sér að þessi stofnun geti best fúnkerað.