132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Herra forseti. Ég er svo heppinn að hér hefur þegar farið fram rækileg umræða um þetta mál og ég þarf þess vegna ekki að vera langorður. Í henni hefur reyndar komið fram að hér er reyndar bara um hálft frumvarp að ræða eða réttara sagt þingmál sem einungis er skref í áttina að því að til verði raunverulegt náttúruminjasafn. Sú spurning vaknar miðað við hvað það er rýrt kjöt á beinum þeim sem mynda þessa frumvarpsgrein hvort hugsanlega hefði verið nær að flytja þingsályktunartillögu um að hefja það starf sem vinna þarf að til að koma upp þessu safni.

Það eru þrjú atriði sem ég ætla að minnast á og tek þá áhættu að það hafi áður verið gert. Það hefur verið gert í flestum atriðum. Í fyrsta lagi getur það orðið nokkur grautur að safnið á að tengjast Náttúrufræðistofnun mjög náið. Um það er tilskilið að gerður verði samningur samkvæmt 3. gr. en umbúnaður þessara tengsla er ekki annar og yfirmaður Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns er ekki sá sami. Það er erfitt að leysa það mál því umhverfisráðherra er hinn eðlilegi yfirstjórnandi Náttúrufræðistofnunar og vegna þess að um safn er að ræða verður að fallast á að menntamálaráðherra sé yfirstjórnandi þess. Þótt um sama fræðasvið, sömu rannsóknir og sömu náttúrugripi sé að ræða á báðum stöðum eru rannsóknir á náttúrunni eitt og safnastarfsemi annað og hvort krefst sinnar tækni og síns sviðs. Nefndin þarf ósköp einfaldlega að athuga mjög vandlega hvernig þessu er háttað og hvernig samningurinn getur litið út, hvernig sú samnýting fer fram um muni og annað sem tilskilin er í frumvarpinu og í athugasemdum við það. Nefndin þarf að sjá út hvernig minnst hætta verður á vandræðum og á því að úr þessu verði einhver grautur þar sem erfitt verði að leysa úr og geti brunnið við, t.d. á milli umhverfisráðherra og menntamálaráðherra sem ekki eru miklir vinir.

Þetta er ekki alveg ljóst í frumvarpinu. Náttúrufræðistofnun á t.d. að sinna rannsóknarskyldu Náttúruminjasafnsins en það segir þó ekki hreinlega heldur er það aðeins að verulegu leyti. Maður spyr strax: bíddu við, að hvaða leyti og að hvaða leyti ekki? Ég hef ekki fundið skýringar á því. Það er einmitt orðalag af þessu tagi sem getur valdið vandræðum að lokum.

Síðan verð ég að segja vegna umræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og hæstv. menntamálaráðherra um aðra aðila að ég er engu nær. Ég skil ekki hvað aðrir aðilar eru að gera inni í 2. mgr. 3. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands …“ þarna á væntanlega að vera sögnin „er“ „… ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar er undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess …“ þetta skil ég, safnkosturinn og vísindasöfnin eru undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess „… og annarra aðila.“ Bíðum nú við! Er þá verið að tala um fræðslu- og sýningarstarfsemi annarra aðila og rannsóknir annarra aðila? Þetta er algerlega óskiljanlegt og ég bið hæstv. menntamálaráðherra að skýra þetta fyrir mér aftur til þess að hægt sé að vinna með þetta í nefndinni þegar þar að kemur.

Í öðru lagi er frumvarpið aðeins heit og síðan eru eftir efndirnar. Um húsnæðið vitum við ekkert meira að sinni en árið 1884 og höfum ekkert um það fram fært hér stjórnmálamenn annað en frómar óskir. Um starfslið þess stendur þó að ráðinn skuli einn maður og það er gott en þegar maður fer að líta á fé það sem veitt er til starfseminnar er það óljóst hvaða fé það er. Fjármálaráðuneytismenn segja í lok þessara frumvarpsskjala að á þessu ári verði þetta fé að koma af óskiptu fé menntamálaráðuneytisins. Það væri kannski ráð að vita núna hversu mikið það óskipta fé er og hvað hæstv. menntamálaráðherra ætlar sér að taka mikinn hlut af því til þess að undirbúa þessa stofnun á árinu — hann ætlar a.m.k. að ráða safnstjóra — og síðan hvað verður gert, hvað er fyrirhugað á næsta ári, því það verður að ganga frá því innan skamms í fjárlagavinnunni.

Þá er kannski rétt að spyrja að því líka hvernig sú úttekt á geymsluþörf safna gengur sem hæstv. menntamálaráðherra lýsti yfir að hann hefði ákveðið að láta fara í í umræðum á þinginu 1. febrúar sl., því ein af helstu vandræðum þeirra gripa sem nú tilheyra Náttúruminjasafninu er að það er geymt víðs vegar og á afar ófullkomnum stöðum. Þessi geymsluvandi leysist ekki við það að komið sé upp safnsölum heldur þarf safn af þessu tagi nokkuð sérstakar geymslur vegna þess að safnið er ekki eingöngu heild gripa heldur sýni úr náttúrunni sem menn þurfa að komast að við rannsóknir og við alls kyns skoðun. Þess vegna þarf að búa um geymslurnar með sérstökum hætti og öðrum en þegar um er að ræða söfn af öðru tagi.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna er 5. gr. þar sem kveðið er á um hæfnisskilyrði safnstjórans. Ég er ekki mikill kröfugerðarmaður um nákvæm menntunarskilyrði þeirra sem ráðast í störf af þessu tagi en mér þykir þetta ekki mjög metnaðarfullt ákvæði að safnstjórinn skuli hafa háskólamenntun eða staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Þetta þurfum við að fara yfir í nefndinni. (Gripið fram í.) Gerir hv. þm. Össur Skarphéðinsson ráð fyrir að hér sé átt við einhvern sérstakan? Er það það sem veldur frammíkalli hans? Eða girnist þingmaðurinn e.t.v. þessa stöðu í framtíðinni? Það kynni að vera. En þá væri það orðað með öðrum hætti. Ef menntamálaráðherra hefði augastað á hv. þingmanni mundi hann kveða á um að safnstjórinn skyldi hafa bæði háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins, sem væri auðvitað æskilegt. En að öllu gríni slepptu væri rétt að fara í þetta og bera það saman við þær kröfur sem gerðar eru til sambærilegra manna.

Að lokum þetta. Það er ánægjulegt að sjá þetta þingmál í umræðunni eftir allan þennan tíma, sem vel og skemmtilega er rakinn í inngangi athugasemda. Björn Bjarnason, sýslumaður í Dölum, Benedikt Gröndal, Helgi Pétursson, Bjarni Sæmundsson og hvert stórmennið af öðru hefur komið nálægt þessu máli og hefur átt þátt í þessari sögu. Því miður er frumvarpið nokkuð seint á ferðinni. Ég minntist áðan á umræðurnar 1. febrúar og þá sagði hæstv. menntamálaráðherra mjög viturlega þegar hann var spurður hvort ekki þyrfti að hafa mikið samráð við menn á vettvangi um þetta að það væri til athugunar að ræða við náttúrufræðinga og náttúruvísindafólk áður en frumvarpið kæmi fram. En, með leyfi forseta, tel ég líka vel koma til greina að tefja ekki um of fyrir málinu þannig að þingið og sú nefnd sem m.a. hv. þingmaður situr í, þ.e. Kolbrún Halldórsdóttir sem kom við sögu áðan, hv. menntamálanefnd hafi tækifæri til að fara gaumgæfilega yfir þetta mikilvæga mál. Þá er bara að ljúka þessari ræðu með því að fagna þeirri umræðu og að mér skilst ákvörðun sem tekin hefur verið á þinginu um að við komum saman eftir kosningar og höfum þá tíma í júnímánuði til að fara gaumgæfilega yfir þetta mál. Ég hlakka til að gera það. Þá er hægt að nota daginn til að skoða málefni Náttúruminjasafnsins og fara í vettvangsferðir um þá náttúru sem safnið á að endurspegla og síðan um kvöldið horfir maður á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu. Ég get varla ímyndað mér betri ævi en að mega fást við þessi störf.