132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum áður horft á ýmsar keppnir saman ég og hv. þm. Mörður Árnason og ég minnist þess að við horfðum á nokkra góða handboltaleiki að kvöldi til í þinghúsinu þegar var stund milli stríða. Mig minnir að við Íslendingar höfum unnið í öll skiptin sem við horfðum á þessa leiki en það virtist vera eitthvert happ þegar við horfðum á sjónvarpið. Því miður eigum við ekki fótboltalið í þetta sinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en hvað veit maður þegar fram líða stundir. Aukning knattspyrnunnar er mikil og góð.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegar athugasemdir og góðar. Ég fór yfir það áðan að ég veit að hv. þingmaður hefur líka sinnt starfi sínu afar vel í menntamálanefnd í gegnum umfjöllunina á Árnastofnun sem nú liggur fyrir og menntamálanefnd kom með ágætis breytingar í þá veru að styrkja alla þá lagaumgerð. Ég efast ekki um að einmitt þær athugasemdir sem hv. þingmaður kom inn á m.a. út af því sem kemur fram í 3. gr. varðandi tengsl Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins eru akkúrat það atriði sem m.a. leiddi til þess að frumvarpið hefur dregist þetta mikið, þ.e. að skera þarna á milli. Eftir að það gerðist á sínum tíma árið 1992 að Náttúruminjasafninu og Náttúrufræðistofnuninni var skipt upp hefur það reynst afar vandasamt að leysa úr því vandamáli sem fylgdi þeim aðskilnaði. Það er kannski fyrst og fremst það sem hefur leitt til þessa dráttar.

Ég tel rétt og ítreka það sem ég sagði að þingið fari vel yfir þessi atriði og fái náttúrufræðinga og fleiri til að fara yfir þær ábendingar sem hv. þingmaður og fleiri eflaust kunna að hafa í þessu merkilega máli sem ég veit að við getum orðið samhent og samhuga um.