132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

688. mál
[20:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Merði Árnasyni það traust sem hann bersýnilega hefur á hv. 1. þm. Reykv. n. varðandi framtíð þessa safns sem hér er undir. Gott boð. Það er rétt að afþakka það strax ef svo skyldi nú fara að hv. þingmaður yrði einhvern tíma hæstvirtur.

Það gladdi mig líka að hv. þingmaður hét hæstv. menntamálaráðherra dyggum stuðningi menntamálanefndar við að fara yfir þetta mál. Það er nefnilega svo, frú forseti, að þegar ég fer yfir þetta frumvarp finnst mér sem það þurfi mjög á sterkum leiðbeiningum og vegvísum að halda. Mér finnst þetta frumvarp nefnilega bera vott um metnaðarleysi. Ég hef um langt skeið, reyndar frá því að ég fyrst tók þátt í stjórnmálum á Alþingi Íslendinga, fylgst með þessu máli og verið umhugað um að yfir Náttúruminjasafnið, eins og það heitir nú eða mun heita, verði byggt. Það verði komið húsi yfir þetta merka safn sem er það safn á Íslandi sem á sér hvað litríkasta og merkasta sögu á sínum fyrstu dögum. Því miður hefur alltaf skort stuðning við það mál og því miður verð ég að hryggja hæstv. menntamálaráðherra með því að metnaðarleysið hefur fyrst og fremst verið í hennar flokki. Það var hennar flokkur sem brá fæti fyrir þetta mál þegar það var komið á þokkalegan rekspöl, komið inn í fjárlög 1991 og 1992. Og allar götur síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn einhverra hluta vegna fremur rekið hornin eða eftir atvikum hnýflana í allar hugmyndir um að ná utan um það verkefni að reisa nægt húsnæði yfir þessa merku starfsemi. Það er þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til menntamálaráðherra á þessum tíma sem ég gat um áðan og því miður hefur enginn verið á þessum málum þar.

Mér finnst að þetta metnaðarleysi sem ég er að gera að umræðuefni speglist í tilurð þessa frumvarps. Það er ágætt fyrir hæstv. menntamálaráðherra að koma hingað og segja að málið hafi verið svo flókið. Það sé svo ofboðslega flókið að skilja á milli Náttúruminjasafns annars vegar og Náttúrufræðistofnunar hins vegar. Það var ekki talið mjög flókið þegar menn réðust í þetta sem mig minnir að hafi verið í ársbyrjun 2002. Þá var því lýst í þessum sölum að það ætti að taka þrjá mánuði, það ætti að skila því máli strax í apríl á því ári. Það hefur tekið fjögur ár. Helminginn af þessum tíma hefur hæstv. núverandi menntamálaráðherra setið í embætti og vafalaust síst við hana að sakast í því efni. En það hefur tekið Sjálfstæðisflokkinn fjögur ár að koma með þetta frumvarp. Það finnst mér vera alveg í stíl við annað metnaðarleysi í þessu tiltekna máli.

Sömuleiðis verð ég líka að segja að þegar ég fer yfir umsögn fjármálaráðuneytisins rekur mig í rogastans. Fjármálaráðuneytið segir hreinlega að það hafi engar forsendur til að meta kostnað við að reka þetta safn. Það hafi heldur engar forsendur til að meta kostnað við það að koma upp húsnæði yfir starfsemina. Því skyldi það ekki hafa neinar forsendur til þess? Vegna þess væntanlega að það eru engar áætlanir um það innan menntamálaráðuneytisins. Í því ráðuneyti hefur ekki neinn haft neinn áhuga á þessu máli og mér sýnist sem hæstv. núverandi ráðherra hafi ekkert meiri metnað en þeir sem á undan honum hafa komið. Hæstv. ráðherra leggur fram þetta frumvarp algerlega undirbúningslaust. Það er bersýnilegt að fjármálaráðuneytið hefur ekki haft nokkurt tilefni til að gera einhverjar þokkalegar kostnaðaráætlanir fyrir þessu.

Það kemur í ljós að samkvæmt frumvarpinu, ef að lögum verður, á safnið að taka til starfa væntanlega í næsta mánuði. Þá er ekki liðið hálft ár. Það er auðvelt að gera sér grein fyrir því út frá þeim tölum sem nefndar eru í umsögn ráðuneytisins að kostnaðurinn við málið bara á þessu ári gæti hlaupið á einhverjum tugum milljóna, 20–30 milljónum.

Hvar á féð að finnast til þess í aðþrengdu menntamálaráðuneyti? Það á að takast af einhverjum óskýrðum safnliðum. Eru þeir peningar til? Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra. Hefur hún það fyrir að þetta fjármagn til að reka safnið á þessu ári ef að lögum verður sé fyrir hendi? Það er sjálfsagt að alþingismenn spyrji hæstv. ráðherra. Menn hafa séð að það hefur verið erfitt fyrir ráðherra að finna fé í sjóðum til að standa straum af annarri lögbundinni starfsemi. Hvað þá þessari. Fyrirhyggjan er þannig að ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu sem nú er að sjálfsögðu orðið að lögum fyrir yfirstandandi ár að þetta verði.

Ég hef ekki neina sérfræðiþekkingu á náttúruminjasöfnum en ég hef skoðað þau ófá. Að minnsta kosti miðað við almenna borgara og alþingismenn þá gjörþekki ég það safn sem hér er undir. Það má segja að vottur af metnaði birtist í því að þetta safn eigi að sinna alhliða náttúrusögu. Það á ekki bara að vera safn sem sýnir einstaka og merka gripi eða eintök af tegundum heldur á að geta varpað ljósi á auðlindir landsins og ýmsa sögulega þætti. En það hvílir á því sú skylda að safna og skrá og það á að afla upplýsinga um náttúrusögu landsins. Þetta er vottur af framsýni. En sá vottur gufar upp fyrir mínum augum þegar ég les með hvaða hætti á að stýra þessu safni. Það hafa að vísu aðrir ágætir alþingismenn bent á á undan mér. En Drottinn minn, hvaða safn skyldi frekar vera til á Íslandi sem þarfnast menntunar í þeim fræðum sem tengjast því ef ekki er þetta. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að það á ekki að vera algild regla að heimta að menn sem ráðnir eru til mikilvægra starfa hjá ríkinu hafi alltaf margar háskólagráður á bakinu. Þetta er hins vegar mjög sértækt safn. Hér er um að ræða safn sem á að skrá, safna upplýsingum og safna minjum sem endurspegla náttúrusögu Íslands og náttúrufar. Skyldi maður ekki ætla að sá sem stýrði því starfi þyrfti að hafa nokkuð góða þekkingu á því og að sjálfsögðu sérfræðimenntun?

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvað veldur því að þær menntakröfur sem gerðar eru til þessa forstöðumanns eru í reynd engar. Það er æskilegt að hann hafi háskólamenntun en hann á að hafa staðgóða þekkingu á safninu. Í fljótu bragði gæti maður haldið að þarna væri hæstv. menntamálaráðherra búinn að handvelja einhvern gæðing innan safnsins núna til að veita því forstöðu. Það er ekki endilega besta leiðin til að finna því farsæla stjórn inn í framtíðina.

Ég held ekki að það sé það sem gangi hæstv. ráðherra til. Þegar maður les greinargerðina með þessari grein kemur í ljós að ekki sé nauðsynlegt að mati hæstv. ráðherra að maður með háskólamenntun stýri safninu. Það gæti verið maður með ýmiss konar reynslu. Af einhverjum óskiljanlegum orsökum, kannski í heiðursskyni við hæstv. landbúnaðarráðherra að það er tekin til ein starfsstétt. Bændur. Það segir í greinargerðinni að það væri ákjósanlegt að maðurinn sem gæti stýrt Náttúruminjasafni Íslands væri bóndi. Hvers vegna? Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þetta safn á að skrá auðlindasöguna. Það á að skrá með hvaða hætti þjóðin hefur lifað af auðlindum sínum.

Vitaskuld geri ég ekki, og allra síst í návist hæstv. landbúnaðarráðherra, lítið úr bændum á Íslandi, síður en svo. En mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna bændur eru teknir sérstaklega til sem ákjósanleg stétt til að stýra Náttúruminjasafni Íslands. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra því ég er gamall sjóari: Hvers eigum við gamlir sjómenn að gjalda? Hvers vegna má ekki taka til einhverja aðra stétt sem líka má sannarlega segja að sé partur af undirstöðu þessa lands og sögu þessarar þjóðar. Þetta er mér algjörlega hulið.

Auðvitað er þetta smáatriði en það sýnir, hæstv. forseti, að þetta mál er fráleitt hugsað til hlítar. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er sennilega bara þingmaður með slaka meðalgreind miðað við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. En gæti hæstv. menntamálaráðherra skýrt þetta út fyrir mér?

Það sem mér finnst skipta máli þegar menn leggja fram frumvarp eins og þetta er að fram komi skýr sýn um hvert á þessi leiðarvísir sem er í frumvarpi af þessum toga að leiða. Við vitum að sá hluti Náttúrufræðistofnunar sem hefur verið safnastarfsemin hefur goldið fyrir það áratugum saman að hafa ekki húsnæði. Þessi húsnæðisskortur hefur auðvitað stafað af áhugaleysi þeirra sem hafa stýrt þessum málum og það hafa verið ráðherrar Sjálfstæðisflokksins síðustu áratugina. En gott og vel. Guð láti gott á vita. Nú kemur það fram í máli hæstv. ráðherra að hún vill taka á þessum málaflokki, vill honum vel. En það er tómt mál að tala um að gera eitthvað átak í þessum málum með því einu að samþykkja lög á síðasta endaspretti þingsins ef það er ekki alveg ljóst að þetta á að leiða til þess að loksins verði þeim áfanga náð að reist verði híbýli yfir þessa starfsemi.

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða áætlanir hefur hún um það og hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu sem á að ná því marki sem við unnendur safns af þessum toga höfum slegist fyrir í óþökk eins tiltekins stjórnmálaflokks núna bráðum í 16 ár?