132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

695. mál
[20:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ástæða til að gleðjast yfir því að þetta frumvarp skuli vera komið fram. Um það hefur verið spurt og það er auðvitað einkum það nýmæli að þessar reglur taka nú til nýrrar tækni, til tölvuleikja sem orðin er ein helsta tómstundaiðja og raunar námsgagn má segja hjá börnum og unglingum á voru landi. Það kynni að vera að upp úr þeim spretti, a.m.k. heldur einn ágætur fræðimaður því fram af Proppé-ættinni, að upp úr þeim spretti hugsanlega listform sem kæmi þá úr tölvunum og hefði undirstöðu sína þar. Algengara, a.m.k. um skeið, hefur hitt verið að tölvuleikirnir hafa fyrir utan náttúrlega og ágæta skemmtun svona heldur siglt nær ströndinni og fréttir borist af því að þar fari fram bæði ofbeldi og klám af ýmsu tagi sem börnum er ekki hent. Það var því nokkuð beðið eftir þessu og ánægjulegt að það er komið fram.

Ég verð svo að segja að sú meginbreyting önnur sem hér er gerð, þ.e. að leggja Kvikmyndaskoðun ríkisins eða hvað hún nú heitir, af held ég að sé líka jákvæð. Tímarnir hafa sennilega breyst og það er eðlilegra að haga þessu með öðrum hætti fyrir utan þessa tæknilegu ábendingu um að hér sé ritskoðun á ferðinni sem engum datt nú í hug fyrr en þeir góðir vinir okkar í Evrópu, Evrópuráðið í þetta sinn, bentu okkur á það. Við þökkum fyrir það og lögum það náttúrlega þegar okkur er á þetta bent. En við sem höfum haft áhyggjur af tjáningarfrelsi og viljað veg þess sem mestan og staðið á móti ritskoðun, hjá okkur hefur þetta ekki borið fyrir í sjóndeildarhringnum fyrr en nú. Það er svo.

Þessum breytingum sem verða, þ.e. þeim að matið er ekki lengur hjá ríkisstofnun á því hvaða aldur skal bundinn við hverja kvikmynd eða tölvuleik gerir það að verkum að matsmenn verða fjölmargir væntanlega eða a.m.k. geta verið það fræðilega og má búast við að annars vegar annist hinir stærri, a.m.k. hinir stærri dreifendur og framleiðendur þetta sjálfir með einhverjum hætti. Hins vegar skipti hinir minni hugsanlega við einhverja sérfræðinga eða einhver fyrirtæki sem menn hafa komið sér upp í þessu skyni. Þess vegna er ákaflega mikilvægt á þessum tímamótum að skýringar allar og matsaðferðir séu á hreinu. Það rekst maður á strax í þessu frumvarpi að það er ekki svo.

Þær skilgreiningar sem hafðar eru í 4. og 5. tölulið 1. gr. um ofbeldiskvikmynd eða tölvuleik heitir það annars vegar og hins vegar kvikmynd eða tölvuleik sem ógnar velferð barna, eru heldur óljósar og ekki vel orðaðar. Það er í athugasemdunum vitnað í að þetta sé hermt eftir orðalagi í útvarpslögum. Það er nú ekki alveg rétt. Til dæmis er talað um það í 5. tölulið 1. gr. að kvikmynd eða tölvuleikur sem ógnar velferð barna sé kvikmynd eða tölvuleikur þar sem inntak, efnistök eða siðferðisboðskapur geti vegna orðfæris eða athafna haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Þetta er nú orðið ansi mikið af stórum orðum í einni setningu sem veldur því að í raun og veru er ekkert orðið eftir af þeirri merkingu sem höfundur væntanlega hefur ætlast til að mætti út úr þessu lesa vegna þess að það ekki inntakið sjálft eða efnistökin eða siðferðisboðskapurinn sem geta haft alvarleg skaðvæn áhrif á þrefaldan þroska barns heldur aðeins ef orðfæri eða athöfn fylgi með. Þetta er orðið álíka flókið og trúarbragðadeilur kristinna safnaða hér fyrr á tímum og raunar enn þann dag í dag þar sem menn deildu um hinn þríeina Guð, um merkingu sakramentisins og annað merkilegt þar sem maður þarf að vera innvígður í launhelgum til þess að fá hinn rétta skilning. Annað dæmi má kannski nefna af marxistum 20. aldar og kannski fleiri öfgastefnum á þeirri öld, t.d. frjálshyggjunni. Halldór Laxness lýsti einhvern tíma samræðum marxista um hinar æðri hagfræðilegu og stéttarlegu kenningar þannig að það væri eins og tvö skip ræddust við út við sjóndeildarhring með þokulúðrum.

Þetta er svolítið þokulúðurslegt sérstaklega þegar þessar skilgreiningar eru svo bornar saman við 3. gr. þar sem tekið er fram hvernig þetta á að vera í verklagsreglunum. Þar er önnur skilgreining en í 1. gr. því að í verklagsreglunum á að taka mið af barnaverndarsjónarmiðum, og er nú gott að það er, og einkum litið til þessa: söguefnis, orðfæris, beitingar ofbeldis, sýningar nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna.

Með ofbeldi, nekt, kynlífi og neyslu fíkniefna er auðskilið hvað við er átt og einungis það álitamál þarna hvað er átt við með fíkniefnum, hvort það eru þá aðeins ólögleg fíkniefni eða hvort það eru líka lögleg fíkniefni. Ég ætla ekki að fara að snúa út úr en það skiptir auðvitað máli að samfélagið horfist í augu við sjálft sig hvað þetta varðar hér og annars staðar. En um söguefnið verður allt óljósara hvernig á að dæma. Ég held að við verðum að gera þetta með einhverjum hætti skýrara. Það er auðvelt að snúa út úr skilgreiningum af þessu tagi og kannski ósanngjarnt af mér að gera það en það er hins vegar grundvallarmál þegar verið er að setja þetta mat út fyrir þessa einu ríkisstofnun þar sem menn geta þá byggt á einhvers konar hefð sem byggst hefur upp og einhvers konar matsaðferðum sem orðið hafa til og menn vita af jafnvel þó að ekki sé beinlínis hægt að skrifa þær út, að menn hafi leiðbeiningar við þær verklagsreglur sem þeir eiga að búa sér til og þær leiðbeiningar verða að vera skýrar.

Ég vil svo bara bæta við að Barnaverndarstofu er hér falið nýtt hlutverk og mikilvægt og það verður að gera henni kleift að sinna því hlutverki. Ég vil í því sambandi efast mjög um það mat — enn ræðum við um fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins — sem kemur fram í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en er haft eftir menntamálaráðuneytinu, sem hér er persónugert, og sagt að það hafi upplýst að það áætli að þessi verkefni svari til eins starfs eða nálægt 5 millj. kr. og auk þess þurfi að kaupa búnað fyrir 0,5 millj. kr. Ég spyr sérstaklega um þessar upplýsingar sem hafðar eru eftir menntamálaráðuneytinu sem greinilega hefur rætt við fjárlagaskrifstofuna því að ég efast um að þetta sé svo. Ég held að þetta verði mun meira og einkum í upphafi þessa starfs tel ég að þetta verði miklu meira álag á Barnaverndarstofuna en þessu nemur.

Ég vil svo segja að lokum að eitt af því sem við þurfum að taka til athugunar í samráði við Barnaverndarstofu og alla þá aðra sem láta sig þetta mál skipta eða koma því við með einhverjum hætti, er hvernig Barnaverndarstofa á að fara að því að hafa alla þá yfirsýn sem henni er skylt að hafa. Hún á að hafa eftirlit með því að ábyrgðaraðilarnir, sem svo eru nefndir, fari rétt að. Hún á að geta tekið út verklagsreglurnar sem menn eiga að búa sér til og hún hefur nýjar heimildir til þess. Í staðinn fyrir ritskoðunina getur Barnaverndarstofa stöðvað sýningar eða dreifingu á efni sem henni ekki líkar og telur ekki vera rétt metið.

Ein af spurningunum sem vakna við þetta er: Á að vera tilkynningarskylda til Barnaverndarstofu? Eiga ábyrgðaraðilarnir svokölluðu að segja Barnaverndarstofu frá því þegar inn kemur nýtt efni og hvernig það er metið? Mér sýnist það vera eitt af því sem þarf að spyrja um eða einhverjar aðrar þær aðferðir sem gera Barnaverndarstofu kleift að sinna því hlutverki sem hún hér hefur og er ákaflega mikilvægt.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni tel ég að hér sé um merkilegt mál að ræða og vona að við komumst til þess á þessu þingi í júní að fara yfir þetta meðfram Náttúruminjasafninu og ég vona að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu taki ekki of mikinn tíma frá okkur þegar þar að kemur. Ég endurtek að ég hlakka mjög til þessa kafla ævi minnar sem hefst á sumarþinginu í júní. Ég sé fyrir mér að gott veður verður ríkjandi og náttúran við Tjörnina og kringum Reykjavík blómstrandi og í góðu standi, allir í góðu skapi á þinginu og við í menntamálanefnd fáumst annars vegar við að skoða barnaefni í kvikmyndum og tölvuleikjum og hins vegar við að ræða við menn um náttúru landsins og það gagn sem má hafa af henni í söfnum áður en við ljúkum deginum á kránum hérna í kringum okkur að horfa á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu. Þetta er yndislegt og ég vil nota tækifærið til að þakka stjórnendum þingsins og hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar fyrir að gefa okkur þetta tækifæri til samveru við góð og þörf verk bæði fyrir þjóðina alla og persónur okkar sjálfra sem hér vinnum.