132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:15]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja fyrir mig að ég er farinn að hlakka til páskanna. (MÁ: En sumarsins?)

Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1075, frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004. Frumvarp þetta er lagt fram til breytinga á núgildandi jarðalögum, nr. 81/2004, sem leystu af hólmi eldri jarðalög. Hin nýju jarðalög færðu löggjöf um jarðir inn í nýja öld og breyttu umhverfi landbúnaðarins. Undirbúningur að gerð nýju jarðalaganna var allur hinn vandaðasti og margir aðilar tengdir landbúnaði veittu umsagnir. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðferð landbúnaðarnefndar Alþingis. Í því frumvarpi sem hér um ræðir er stefnt að því að bæta jarðalögin með því að auðvelda framkvæmd þeirra en frumvarpið felur ekki í sér neinar verulegar efnisbreytingar á ákvæðum laganna.

Í 10. gr. jarðalaga segir að ekki þurfi að tilkynna um eigendaskipti þegar lögaðilar eiga jarðir. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að undantekning þessi verði felld brott. Í frumvarpinu er lagt til að það verði gert að sérstöku skilyrði að hnitasettur uppdráttur fylgi umsókn um stofnun nýs lögbýlis er sýni á ótvíræðan hátt legu umrædds lands.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að fellt verði niður undantekningarákvæði 3. mgr. 38. gr. jarðalaga, um auglýsingaskyldu við sölu á leigulóðum, jörðum og jarðahlutum í þeim tilvikum þegar leigutaki hefur haft land á leigu í a.m.k. 20 ár og á eigin kostnað lagt í verulegar ræktunarframkvæmdir á landinu og þannig aukið verðmæti þess umtalsvert.

Ástæða þess að ég legg til þessa breytingu er sú að túlkun ákvæðisins hefur reynst erfið þar sem orðalagið „verulegar ræktunarframkvæmdir“ er einkar óljóst og matskennt og sama má reyndar einnig segja um orðalagið að framkvæmdir hafi „aukið verðmæti lands umtalsvert“. Þess ber að geta að sú skylda hvílir almennt á stjórnvöldum að gæta jafnræðis við ráðstöfun eigna ríkisins eins og umboðsmaður Alþingis hefur lagt sérstaka áherslu á. Taka verður fram að með frumvarpinu er ekki verið að útiloka sölu leigulands til leigutaka án undangenginnar auglýsingar ef sérstök rök standa til þess að óska slíkrar heimildar Alþingis.

Í núgildandi ákvæði 2. mgr. 39. gr. er mælt fyrir um það að við ákvörðun samkvæmt 1. mgr. greinarinnar um hvaða ríkisjarðir skuli ekki selja skuli landbúnaðarráðuneytið leita umsagnar viðkomandi fagstofnana ríkisins eftir því sem við á. Landbúnaðarráðuneytið fer með forræði ríkisjarða nema undantekningar séu á því gerðar með lögum. Slíkar undantekningar eru allnokkrar og er því fjöldi jarða sem aðrir ríkisaðilar hafa forræði yfir. Ég tel óeðlilegt að landbúnaðarráðuneytið leiti umsagnar vegna þeirra jarða sem ráðuneytið hefur ekkert með að gera. Af þessum sökum er lagt til í 4. gr. frumvarpsins að viðkomandi forráðaaðili beri umsagnarskylduna en ekki landbúnaðarráðuneytið.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins legg ég til að auknir verði möguleikar óðalsbænda til þess að veðsetja jarðir sínar til mannvirkjagerðar eða annarra varanlegra endurbóta á óðalsjörð. Óðalsjarðir eru sérstakt eignarform og eiga sér langa sögu bæði hérlendis og á Norðurlöndum. Af 42. gr. jarðalaga leiðir að eignarformið mun hverfa úr íslenskri löggjöf á nokkrum áratugum með fráfalli núverandi óðalsbænda og maka þeirra. Óðalsjarðirnar erfast eftir almennum reglum.

Samkvæmt núgildandi lögum geta óðalsbændur einungis veðsett óðalsjörðina til tryggingar greiðslu framkvæmdarlána frá Lífeyrissjóði bænda eða Orkusjóði. Áður var Lánasjóður landbúnaðarins en nafn hans var fellt brott með lögum frá árinu 2005 sem veittu heimild til sölu sjóðsins. Sú breyting skerti til muna möguleika óðalsbænda til lántöku á hagstæðum kjörum. Ég tel að þessi breyting feli í sér réttarbót fyrir óðalsbændur og geri þeim kleift að standa jafnfætis öðrum bændum landsins við öflun lánsfjár til framkvæmda og uppbyggingar hjá hverri þeirri lánastofnun sem þeir kjósa að eiga viðskipti við.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu og athugasemda með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.