132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:23]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað óðalsjörðina varðar þá er hún leifar af hinu gamla konungsríki, konungshugsjóninni. Elsti sonurinn tók við óðalinu og margar þessar jarðir hafa síðan verið í fjötrum ættardeilna og átaka. Það er ekki víst að elsti sonurinn vilji búa o.s.frv. og þær hafa því verið illa settar í löggjöfinni og eru úreltar í löggjöfinni. Við stofnuðum lýðveldi 1944 og það hefur tekið við.

Hins vegar er ég sammála hv. þingmanni um að við skulum tala um óðalið og óðalsjörðina, það er tignarlegt nafn. Óðal Brúnastaðamanna eru t.d. Brúnastaðir, mikil óðalsjörð en lýtur almennum rétti og börnin öll jöfn að því að geta tekið þar við búi svo dæmi séu nefnt.

Hvað varðar hitt, með auðkýfingana, stóð ég nú frammi fyrir því þegar ég tók við landbúnaðarráðuneytinu fyrir sjö árum að þá voru jarðir ekki verðmætar eignir á Íslandi. Margur fór fátækur frá sínu ævistarfi. Nú er sveitin í tísku og jarðir seljast dýrt, jafnvel svo að okkur sundlar. Íbúðarverð í Reykjavík norður hefur á einu ári hækkað um 45%. Jarðir hafa hækkað mikið og eru mjög eftirsóttar í dag.

Ég hef talað um að fara yfir málefni þeirra sem eru í raðuppkaupum en ég fagna öllum þeim, bæði ríkum og fátækum, sem hafa viljað eignast land og setjast að í sveitinni. Þetta er nýtt ævintýri og þá þróun má ekki stöðva. En ég lofa hv. þingmanni hins vegar því að farið verður yfir það hvort menn séu að kaupa landið til að leggja jarðirnar í eyði. Það væru skemmdarverk. Ég veit að margir þeirra sem keypt hafa jarðir eru líka að byggja upp mikið starf. Það verður að vanda sig í allri þeirri yfirferð og það mun ég auðvitað gera með landbúnaðarnefnd og Alþingi á næsta þingi.