132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:29]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var orðin fróðleg umræða og hefði gjarnan mátt vera áframhald á henni.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er að ég held að flestu leyti til bóta. Þó verð ég að viðurkenna að hjá mér vakna spurningar varðandi 4. gr. En samkvæmt núgildandi lögum skal landbúnaðarráðuneytið leita umsagnar viðkomandi fagstofnana ríkisins um hvaða ríkisjarðir skuli ekki selja. Landbúnaðarráðuneytið fer með forræði ríkisjarða nema undantekningar séu á því gerðar með lögum, sbr. 33. gr. jarðalaga. Í athugasemdum segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er ákvæðið orðað á almennari hátt svo að aðrir forráðaaðilar en landbúnaðarráðuneytið beri einnig samráðsskyldur samkvæmt ákvæðinu en slík skylda sé ekki lögð á ráðuneytið vegna jarða sem það hefur ekki forræði yfir.“

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að um töluvert margar jarðir væri að ræða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort fjöldi þessara jarða sé þekktur og þeirra forráðaaðila. Þurfa þeir þá undir engum kringumstæðum að hafa samráð við landbúnaðarráðuneytið vegna sölu heldur eingöngu þann sem forráð hefur, t.d. varðandi kirkjujarðir. Það má vera að ég misskilji þetta ákvæði, en verður ekkert samráð við landbúnaðarráðuneytið í þeim tilvikum sem aðrir forráðaaðilar eru að jörðunum?