132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Eldi og heilbrigði sláturdýra.

740. mál
[21:37]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þingskjali 1076, en um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Hæstv. forseti. Í núverandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, er kveðið á um með hvaða hætti gjald vegna þeirrar heilbrigðisskoðunar sem fram fer í sláturhúsum eftir ákvæðum 3. kafla laganna er innheimt.

Eins og fyrirkomulagið er nú samkvæmt gildandi lögum er eftirlitsgjaldið innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, nánar sundurgreint eftir tegundum, og rennur það í sjóð í vörslu landbúnaðarráðherra. Einnig kemur fram í núverandi 11. gr. að eftirlitsgjaldið skuli miðast við raunkostnað og því sé ætlað að standa straum af heilbrigðiseftirliti kjötskoðunarlækna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hætt verði að innheimta gjald fyrir heilbrigðiseftirlit eftir ákveðinni krónutölu sem ákveðin var í lögum. Þess í stað verði innheimta heilbrigðiseftirlitsgjaldsins byggð á gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur. Áfram er gert ráð fyrir að gjaldið taki mið af raunkostnaði við eftirlitið og skal gjaldskrá byggjast á því.

Í núverandi lögum er ekki nægilega tryggt að gjaldtaka sem miðar við fasta krónutölu endurspegli raunverulegan kostnað við eftirlit. Ekki er hentugt að breyta þurfi lögum ef kostnaður eykst eða minnkar við eftirlitið og með því að heimila ráðherra að setja gjaldskrá um eftirlitið er betur hægt að endurspegla raunverulegan kostnað við það.

Af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiðir að ráðherra er einungis heimilt að innheimta raunkostnað af eftirliti. Í frumvarpinu er sérstakur eftirlitssjóður í vörslu ráðherra lagður niður en gjöldin munu þess í stað renna beint til Landbúnaðarstofnunar sem framkvæmir eftirlit.

Hæstv. forseti. Með frumvarpinu er skilgreint til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið nær en í núverandi lögum er ráðherra falið að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins og um innheimtu kostnaðar vegna þess. En eftirlitið sjálft er ekki skilgreint í núverandi lögum heldur í reglugerð. Þó er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra hafi áfram ákveðnar heimildir til að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins og innheimtu eftirlitsgjaldsins.

Við gerð frumvarpsins var stuðst við reglugerð Evrópusambandsins nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit með fóðri, matvælum, heilbrigði dýra og dýravernd, enda er reglugerðin ítarleg og má telja æskilegt að mörgu leyti að íslenskur réttur sé samræmdur Evrópurétti á þessu sviði. Evrópugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en svo kann þó að verða síðar, enda hafa viðræður átt sér stað í þá veru.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að ef þörf er á viðbótareftirliti með sláturafurðum skuli viðkomandi sláturleyfishafi eða framleiðandi greiða fyrir slíkt eftirlit sérstaklega en kostnaður af því verði ekki innifalinn í hinu almenna eftirliti sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins.

Þetta er í anda þess að þeir sem þarfnast nánara eftirlits, ef til vill vegna verri aðstöðu eða verri heilbrigðisstöðu, borgi þann kostnað sjálfir. Þannig ætti það að vera framleiðendum til hagsbóta að hafa ástand búa sinna með þeim hætti að ekki þurfi að koma til sérstakra prófana vegna smitefna hjá þeim. Með þessu er jafnframt tryggt að kostnaði vegna sýnatöku hjá einstökum framleiðendum sé ekki velt yfir á stéttina í heild sinni, sem eykur kostnað allra framleiðenda og leiðir til hækkunar verðlags.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu og athugasemda með frumvarpinu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.