132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:13]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka upp annað mál en hér hefur verið rætt. Það hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum að eftirlaunamálið svokallaða væri strand í forsætisnefnd. Meðal annars hefur verið haft eftir hæstv. forsætisráðherra að það skorti samstöðu í forsætisnefnd Alþingis til að gera breytingar á lögunum. Haft var líka eftir forsætisráðherra að ekki væri við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn að sakast, heldur væri ágreiningur um málið í forsætisnefnd.

Þetta er alrangt og óþolandi að liggja undir því ámæli að forsætisnefnd sitji á málinu. Síðast í gærkvöldi kom fram í sjónvarpsfréttum að eftirlaunamálið væri til meðferðar í forsætisnefnd. Jafnvel þótt reynt hafi verið að leiðrétta það af formanni þingflokks Samfylkingarinnar, Margréti Frímannsdóttur, er enn haldið áfram að hamra á því að málið sé strand í forsætisnefnd. Hið rétta í málinu er að forsætisnefnd var í nóvembermánuði sl. kynnt lögfræðiálit um málið sem unnið hafði verið fyrir forsætisráðuneytið og engin ósk fylgdi frá forsætisráðherra eða ráðuneyti hans um að forsætisnefnd mundi beita sér fyrir lagabreytingu á eftirlaunalögunum.

Málið er því ekki til meðferðar í forsætisnefnd og hefur ekki verið. Einu afskiptin voru þau að lögfræðiálit var kynnt í forsætisnefnd í nóvember sl. Það er allt og sumt. Það er mikilvægt að hæstv. forseti Alþingis greini frá því og staðfesti að afskipti forsætisnefndar hafi ekki verið önnur en þau sem ég hef hér lýst. Beini ég þeirri ósk til hæstv. forseta því að mikilvægt er að hið rétta komi fram í þessu máli.