132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:14]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Í tilefni þessara orða hv. þingmanns vill forseti taka fram eftirfarandi: Síðasta vor, þann 25. apríl 2005, sendi forsætisráðuneytið þáverandi forseta Alþingis lögfræðilegt álit sem hafði verið unnið fyrir ráðuneytið um heimild löggjafans til ákveðinna breytinga á lögum um eftirlaun forseta Íslands, alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara. Í álitinu kemur m.a. fram að hægt sé að breyta lögunum en varhugavert sé að hreyfa við lífeyrisréttindum sem þegar hafi tekið gildi vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Álit þetta var unnið í kjölfar umræðna sem höfðu farið fram í fjölmiðlum.

Hæstv. forsætisráðherra sagði við fjölmiðla, m.a. ríkissjónvarpið þann 24. janúar 2005, að hann vildi breyta lögunum og hafa um það samráð við aðra á Alþingi í því skyni að ná samstöðu um málið. Í bréfi forsætisráðuneytisins til forseta Alþingis í apríl í fyrra er ekki sett fram nein ósk um viðbrögð við lögfræðiálitinu. Álitsgerðin kom ekki til umræðu í forsætisnefnd fyrr en 7. nóvember sl. og aftur þann 11. nóvember sl.

Í samráði við forseta Alþingis boðaði forsætisráðherra formenn flokkanna til fundar þann 5. desember sl. og lagði þar fram drög að frumvarpi til breytinga á lögum um eftirlaun forseta Íslands o.fl. sem byggðust á áðurnefndu lögfræðiáliti. Eins og fram kom í umræðum á Alþingi síðasta dag fyrir páska töldu formenn stjórnarandstöðuflokkanna að of lítill tími hefði verið til að afgreiða málið fyrir jólahlé, auk þess sem efniságreiningur var um frumvarpsdrögin. Nýr fundur var haldinn með formönnum flokkanna þann 16. janúar sl. en þar kom enn fram efniságreiningur, svo og mismunandi sjónarmið um hverjir ættu að standa að framlagningu málsins. Forseti hefur litið svo á að þessi frumvarpsdrög séu trúnaðarmál á þessu stigi.

Síðan í janúar hefur þetta mál ekki verið til umræðu í þinginu svo að forseta sé kunnugt nema hvað að því var vikið í 1. umr. um frumvarp til laga um kjararáð þann 11. apríl sl. og ekki í forsætisnefnd utan hvað um það var spurt á fundi nefndarinnar nú í morgun.

Niðurstaðan er því sú að um málið hefur ekki náðst efnisleg samstaða og þar af leiðandi hefur frumvarpið ekki komið á borð forsætisnefndar.