132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Fundarstjórn.

[12:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekki fannst mér þetta innlegg hæstv. forseta verða til þess að friðvænlegra yrði í þessum sölum. Ég skildi orð hæstv. forseta á þann veg að þingmenn yrðu þá settir á fund fram á nótt, þótt frídagur sé á morgun, ef þeir stytta ekki mál sitt eins og hæstv. forseta þóknast. Nú er það þannig að hér er fyrst á dagskrá í dag mál sem er ákaflega umdeilt, mál sem er alveg ljóst að stjórnarandstaðan er ákaflega andstæð, mál sem stjórnarliðið hefur ekki náð að flytja þokkaleg rök fyrir. Í því máli eru þó sáttafletir. En það er alveg sama hvað reynt er af hálfu stjórnarandstöðunnar, ekki virðist nokkur vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar til að reyna að finna flöt á því máli.

Illt er að eggja óbilgjarnan. Núna höfum við það, þegar við horfum yfir veturinn, að búið er að riðla í einu og öllu hinni upphaflegu starfsáætlun. Fallið hefur verið frá öllum skipulögðum nefndardögum, þeir hafa verið fluttir til. Hæstv. forseti segir svo núna að fundur verði haldinn á föstudaginn til að kanna hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi um það hvernig halda eigi þinghaldinu áfram.

Nú get ég trúað hæstv. forseta fyrir því að mér er ekkert að vanbúnaði að sitja hér langt fram á vorið. Það er ekkert verra fyrir stjórnarandstöðuna á þessu kosningasumri að þinghald verði fram að sveitarstjórnarkosningum ef þess þarf. Ég sé ekki að mál séu að þróast með þeim hætti fyrir ríkisstjórnina að henni væri mikill akkur í því. Staðreyndin er einfaldlega sú að þau mál sem liggja fyrir þinginu eru sum stór og umdeild. En það er ekkert þeirra svo brýnt að það þurfi að leggja í meiri háttar ófrið til að koma þeim fram. Ég spyr því hæstv. forseta hvort hún muni nú ekki hlutast til um einhvers konar viðræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það deiluefni sem hér er á dagskrá síðar í dag. Því það er auðvitað, svo menn tali alveg hreint út, það mál sem mestur styr mun standa um og það verður mikill styr. Það er alveg ljóst. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson á, ef hann nennir, örugglega eftir að fá tækifæri til að hlusta á fleiri langar ræður um það mál vegna þess hve vanreifað það er af hálfu ríkisstjórnarinnar.

En við þingmenn þurfum að vita hvert er fyrirhugað skipulag þingsins í dag. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur í tvígang spurt hæstv. forseta út í það en fær engin svör. Hæstv. forseti segir að haldið verði áfram fram á kvöldið. En á morgun er frídagur. Sumir þingmenn þurfa að komast til sinna heimahaga eins og hefð er fyrir á slíkum dögum.

Ég endurtek spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar: Hversu lengi á að halda áfram í kvöld? Ef hægt verður að fá svar við því kynnu kannski umræður um fundarstjórn forseta að skemmast.