132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Fundarstjórn.

[12:40]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Tvær yfirlýsingar hafa nú komið um það hvernig ljúka eigi þingfundi í dag. Sú fyrri fólst í einhvers konar yfirlýsingu um að það færi eftir því hvað menn væru langorðir í dag, og er sérkennileg. Hinni síðari fagna ég. Hún var á þann veg að þá hefur forseti fallið frá því að láta þingfund fara eftir lengd ræðutíma hjá einstökum mönnum en ætlar ekki að halda áfram lengur en til miðnættis. Ég tel að það sé heppilegt og ég lít á það sem lærdóm sem forseti hafi dregið af því sem gerðist hér um daginn.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi áðan í miklum tón um sex tíma ræðu Ögmundar Jónassonar. Þess skal getið, þannig að það sé fest á bækur og skráð á net, að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var ekki viðstaddur þá ræðu. Það var kannski eðlilegt vegna þess að sá flutningur stóð fram til kl. hálfsex þann dag sem þar var um að ræða. Þeir sem fyrst áttu að fara á nefndarfundi morguninn eftir fengu til svefns og undirbúnings þann tíma frá hálfsex, 5.30, til 8.15. (Gripið fram í.) Ég hygg að það hafi verið. Um það má fræðast betur hjá þeim sem fóru á fyrstu fundina. Ég átti þá annan fund á seinni tímanum, kl. 10.15, en ég vona að hinir hafi vaknað og haft gaman af.

Þessi sex tíma ræða Ögmundar Jónassonar fór fram við skilyrði sem eiginlega er ekki hægt að kalla annað en víggrafastyrjöld. Forsetar þingsins sem þá voru, en aðalforseti þingsins var þá staddur á Írlandi að heimsækja starfsbróður sinn og fleiri fyrirmenn í því landi, hv. þm. Jónína Bjartmarz og Birgir Ármannsson, voru þráspurð að því hér á göngum ásamt fleiri stjórnarliðum, þar á meðal menntamálaráðherra hæstv. sem var hér um nóttina — það var gaman að því að hún skyldi lúta svo lágt að vera hér. Og fleiri glaðir sjálfstæðismenn voru hér líka þessa nótt og fóru mikinn. Þeir voru spurðir hér í ræðustóli, það gerði Ögmundur Jónasson þegar hann var að flytja ræðuna, hvernig ætti að ljúka þingfundinum sem þá var. En þá voru aldrei veitt svör.

Þannig að í raun og veru var það sem gerðist þar misbeiting, vil ég segja, fundarstjórnarvalds þessara tveggja forseta og væntanlega þá á ábyrgð þess forseta sem þingið kaus sem sinn forseta …

(Forseti (SP): Forseti gerir athugasemd við að hv. þingmaður tali um misbeitingu forsetavalds og biður hann að gæta orða sinna.)

Ég skal gera það, forseti. Ég verð að fá þann tíma sem ég þarf til þess. Það er kannski ekki rétt að tala um misbeitingu forsetavalds en ákaflega sérkennilega beitingu forsetavalds á þessum tíma sem varð til þess að fundurinn stóð til kl. 6 og varð til þess að umrædd ræða varð eins löng og raun ber vitni. Ég held að menn eigi að tala um þennan fund í því (Forseti hringir.) ljósi sem við sem vorum á honum munum eftir honum.